Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:54:46 (7184)

2004-04-29 15:54:46# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég er búinn að fara yfir þetta atriði málsins svo oft að ég hlýt að vísa til þess sem áður hefur komið fram en bæti því við að ég er ósammála því að um öfuga sönnunarbyrði sé að ræða. Í því skilyrði að krefjast þess að sá aðili sem óskar eftir því að stjórnvald taki ívilnandi stjórnvaldsákvörðun honum til handa tel ég rétt að hann sýni fram á það að hann uppfylli þau skilyrði sem lög kveða á um. Sú regla er eðlileg og getur ekki í réttarfarslegum skilningi eða öðrum falið í sér öfuga sönnunarbyrði. Sé þetta réttur skilningur eða rétt lesið af hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni upp úr álitsgerð eða umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands, lýsi ég mig einfaldlega ósammála þeirri túlkun. Það er eins einfalt og það er. Ég fór yfir það áðan í ræðu minni og tók fjölmörg dæmi, m.a. um þá sem sækja um örorku og þá sem afla sér t.d. réttinda til málflutnings og óska þar með eftir því að stjórnvald taki ívilnandi ákvörðun þeim til handa. Ég tel það eðlilegt og lögum samkvæmt og að það feli ekki í sér neina óeðlilega sönnunarreglu að þeir leggi sjálfir fram þau gögn sem sýna fram á það og sanna að þeir uppfylli skilyrði laga sem kveðið er á um.