Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:56:45 (7185)

2004-04-29 15:56:45# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur margoft komið fram að fulltrúar Sjálfstfl. og fulltrúar Samf. eru ósammála í þessu máli. Það er grundvallarágreiningur milli þessara stjórnmálaflokka hvað það varðar, enda hafa þeir mismunandi hugmyndafræði um hvernig eigi að nálgast svona réttindamál.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson styður 24 ára regluna. Við gerum það ekki. Hann vill halda í 66 ára regluna. Við viljum það ekki. Hann vill halda inni lífsýnaákvæðinu. Ekki við. Hann hefur talað fyrir því að skipun talsmanna fyrir hælisleitendur verði lögð af. Sömuleiðis er ákvæði í frv. um eignaupptöku á þeim einstaklingi sem kemur ólöglega til landsins. Það er mikill ágreiningur um þetta atriði.

Öfuga sönnunarbyrðin er líka eitt af þessum grundvallar\-ágreiningsefnum sem um er að ræða. Minni hluti allshn. og Samf. telja það einfaldlega ekki einstaklingsins að afsanna ásakanir ríkisstofnana eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það var ekki í núverandi lögum. Því er bætt núna við. Við teljum rétt að Útlendingastofnun beri að sanna að viðkomandi búi í málamyndahjónabandi eða í nauðungarhjónabandi en ekki einstaklingsins að afsanna það.

Að lokum langar mig að vitna enn og aftur í II. kafla umsagnar laganefndar Lögmannafélags Íslands, með leyfi forseta:

,,Laganefnd bendir á að til að ná þeim tilgangi að stemma stigu við málamyndahjónaböndum og nauðungarhjónaböndum virðist nægilegt að kveða á um refsinæmi þess að stofna til þeirra eins og gert er í 16. gr. frumvarpsins. Er það þá metið fyrir dómstólum hvort háttsemin telst sönnuð. Telur laganefnd ekki rétt að kveða á um missi réttar til dvalarleyfis fyrr en eftir að slík háttsemi hefur verið sönnuð eftir meginreglum opinbers réttarfars, m.a. þeirri grundvallarreglu sem kveðið er á um í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, að maður skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð.``