Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:25:30 (7188)

2004-04-29 16:25:30# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í andsvari og ætlaði að spyrja hv. þm. um réttlætingu hennar fyrir 24 ára reglunni og 66 ára reglunni. Það gleður mig að heyra að hv. þm. sem hefur farið svo ítarlega yfir málið í nefnd skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú regla væri ekki ásættanleg. Hún er með fyrirvara við ákvæðið og ég spyr hvort þessi fyrirvari þýði að hún muni ekki styðja slík aldursmörk.

Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á hv. þm. og tek undir það að farsælla er að hafa meira samráð. Það er sérstaklega mikilvægt að hafa samráð við hagsmunaaðila og þá sem málinu tengjast úti í þjóðfélaginu. Ég tel að stóru mistökin sem núverandi ríkisstjórn gerir aftur og aftur sé að hún er of upptekin af valdi sínu. Hún þarf ekki lengur að spyrja neinn og þarf ekki að hlusta á neinn. Það er ákveðið andrúmsloft óvirðingar í þessum lagasetningum, m.a. varðandi útlendinga.

Ég bendi á að nú þegar þurfum við á útlendingum að halda í mjög veigamikil störf. Við leggjumst inn á sjúkrahús og hverjir eru þar í öllum grunnstörfunum? Það eru útlendingar. Svíar hafa reiknað út að þeir þurfi mjög á erlendu vinnuafli að halda og útlendingar komi og deili með þeim samfélaginu. Annars verður ekki um það að ræða að þeir fari á eftirlaun á þeim kjörum sem menn gera í dag og þykir eðlilegt á Vesturlöndum.