Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:27:25 (7189)

2004-04-29 16:27:25# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að grípa það síðasta sem hv. sagði, að Svíar væru að flytja inn ódýrt vinnuafl og þyrftu mikið á því að halda. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er þannig að við höfum ekki sömu þörf fyrir erlent vinnuafl. Ég vil helst geta tekið á móti útlendingum á Íslandi á annarri forsendu en vinnuaflsþörfinni. Ég ætla að fá að halda því til haga.

Mér heyrðist hv. þm. hins vegar víkja að lögunum sem sett voru 2002. Ég ætla í því samhengi að benda á að það var mjög mikið gagnrýnt við þá lagasetningu hve margar reglugerðarheimildir voru gefnar. Svo kom í ljós að ein reglugerð var gefin út. Það vill svo til að áður en sú reglugerð var sett var hún send í drögum til allra þeirra sem málið varðaði, líka samtaka útlendinga, ættingja útlendinga og annarra sem því tengdust. Um hana náðist mjög góð sátt. Ég man ekki eftir ósætti um aðdragandann og vinnuna við það frv. áður en það kom fram. Frv. sem samþykkt var 2002 var sniðið að norsku löggjöfinni en einnig voru töluvert miklar breytingar gerðar á því í meðförum allshn. Ég held að það megi fullyrða að víðtæk sátt sé um þau lög, eftir að þau voru sett, sem ekki leit út fyrir þegar um málið var rætt á þinginu.