Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:32:54 (7193)

2004-04-29 16:32:54# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson fór mikinn í ræðustól og hélt því fram að mikill ágreiningur væri innan allshn. milli stjórnarflokkanna í málefnum útlendinga. Hv. þm. hefur ekki nokkra ástæðu til að gefa það í skyn og hefur ekki fundið nokkurn ágreining innan nefndarinnar. Það styðst því ekki við nein rök eða tilefni að gefa það í skyn. Það ríkir sátt og ég stend að áliti meiri hlutans með fyrirvara einungis um þetta eina atriði.

Af því að talað var um að ég hafi gagnrýnt skort á samráði var það ekki lunginn í ræðu minni. Í þinginu og í allshn. eru fjölmörg vel unnin frv. sem unnin eru í fullu samráði. Það má ekki bara halda því á lofti sem miður fer. Við skulum horfast í augu við það að mörgum frv. er vert að hrósa, bæði aðdragandanum, undirbúningnum og samráðinu sem fram fer.

Ágreiningurinn er ekki til staðar, frú forseti, um annað en þetta atriði. Ég veit ekki hvort það er ágreiningur í sjálfu sér, þetta er mitt persónulega mat. Ég fékk rök fyrir ýmsu öðru í frv. í meðförum nefndarinnar, en ég fann ekki rök fyrir því að þetta væri nauðsynlegt. Ég trúi því að maður eigi ekki að ganga lengra en þörf, aðstæður og nauðsyn sýna fram á í svona löggjöf og því treysti ég mér ekki til að styðja þetta atriði.