Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:40:53 (7198)

2004-04-29 16:40:53# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Útlendingarnir lesa ekki útlendingalögin. Það er alveg rétt. En þeir sem starfa eftir útlendingalögunum á Íslandi kunna þau afturábak og áfram. Þeir skynja og lesa í þeim andann. Viðhorf þeirra mótast af lögunum, eðlilega. Þess vegna er hættulegt að hafa tóninn í löggjöf af þessu tagi annað en vinsamlegan. Ekki af því að útlendingarnir geti ekki lesið lögin og skilji þau ekki.

Við erum ekki með fréttir af því á hverjum degi, en við fáum fréttir af því að það gangi ekki auðveldlega að komast inn í landið, jafnvel fyrir fólk sem af eðlilegum orsökum sækir um dvalarleyfi eða atvinnuleyfi hér á landi. Ég vil nefna eitt í því sambandi. Mér finnst algerlega forkastanlegt að úrskurðir Útlendingastofnunar skuli ekki vera opinberir. Það er eitt sem ég held að við hljótum að geta sameinast um að breyta.