Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:51:30 (7201)

2004-04-29 16:51:30# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Komið hefur fram í ræðum manna í dag að varlega beri að halda á þeim málum sem snúa að útlendingum og ég get tekið undir það. Hitt er annað mál að það er því miður margur sauðurinn í stórum hóp og mörgu fé eins og hér hefur orðið reyndin á. Það er mér minnisstætt að búið er að liggja nokkuð lengi á skrifborðinu hjá mér á skrifstofu þingsins frétt úr Fréttablaðinu frá því 3. janúar 2003. Þar segir svo, með leyfi forseta, í fyrirsögn:

,,Giftist systur fyrrverandi sambýlismanns. Marókkósk systkini fengu dvalarleyfi eftir að hafa tekið upp sambúð við sama Íslendinginn.``

Hann var í staðfestri sambúð með bróður og trúlofaðist síðan systur. Bæði fengu dvalarleyfi á Íslandi. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum. Við erum að verjast þessu og eðlilegt að gert sé. Það eru því miður allt of mörg dæmi um að menn komi hingað til lands á fölskum forsendum. Svo segja margir Íslendingar: Elsku vinir, komiði bara til landsins, við tökum ykkur opnum örmum hvernig svo sem þið komið til landsins.

Á sama tíma er t.d. Atlanta að fljúga pílagrímsferðir með íslenskar flugfreyjur í áhöfn. Þar eru gerðar kröfur um að þessar íslensku konur, sem eru að sinna störfum sínum, gangi með andlitsdulur vegna þess að svo segir í trú þeirra þar. Það er sjálfsagt að erlendir aðilar komi til Íslands en mér finnst eðlilegt að þeir aðlagi sig að íslensku þjóðlífi. Þetta er náttúrlega alveg dæmigert fyrir þann vanda sem útlendingaeftirlitið hefur staðið frammi fyrir trekk í trekk og Íslendingar eru líka að taka þátt í þessu skúespili að giftast, trúlofast eða staðfesta sambúð. Og það tekur náttúrlega út yfir allan þjófabálk þessi dæmalausa frétt í Fréttablaðinu.