Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:55:47 (7203)

2004-04-29 16:55:47# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef náttúrlega ekki verið í miklum samskiptum við útlendingaeftirlitið. En ég veit þó að í mörgum tilvikum hefur það komið upp að aðilar sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt hafa villt á sér heimildir og verið með ósannsögli til að afla sér ríkisborgararéttar. Það er náttúrlega grafalvarlegt mál.

Við þekkjum dæmi sem var í fréttum ekki fyrir löngu af stúlku af erlendu bergi brotinni sem var heldur betur lamin og átti fótum fjör að launa vegna þess að ættingjar kröfðust þess að hún giftist föðurbróður sínum. Það voru trúarbrögð sem þar voru á bak við. Það er náttúrlega grafalvarlegt mál. En eins og ég sagði áðan er eðlilegt að erlendir aðilar sem hingað koma og vilja setjast að á Íslandi aðlagi sig að íslensku þjóðlífi en geri ekki kröfu um að við förum að aðlaga okkur að þeim, samanber dæmið með Austurbæjarskóla þar sem átti að aðlaga matseðilinn vegna þess að tvö eða þrjú múslimabörn voru komin þar inn. Þá átti að fara að breyta öllum matseðlinum til að hann væri þénanlegur, þóknanlegur þeim tveimur eða þremur erlendu börnum sem þar voru. Þar átti allur hópurinn að aðlaga sig að því. Það er auðvitað rangt. (Gripið fram í: Hvernig ...?) En hversu mikil brögð eru að því veit ég ekki, en ég þykist vita að hv. formaður Samf. sé ábyggilega mjög kunnugur útlendingaeftirlitinu og viti allt hvað þar gerist, hann talar þeim tungum að það er alveg greinilegt að hann hefur mjög verið þar innan dyra að ætla má.