Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:57:44 (7204)

2004-04-29 16:57:44# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fæ ekki séð að sú breyting sem nú er verið að ræða um á útlendingalögunum muni koma í veg fyrir að konur sem eru af erlendu bergi brotnar verði fyrir ofbeldi í framtíðinni. Það er líka framið ofbeldi gegn íslenskum konum af íslenskum karlmönnum. Ég get ekki séð að þessi lagabreyting muni breyta nokkru þar um, það eru aðrir og meiri hlutir sem þurfa að koma til en það.

Varðandi mataræði í Austurbæjarskólanum. Þetta eru allt saman einhver einangruð tilfelli sem hægt er að ráða bót á án þess að breyta öllum útlendingalögunum og fara að setja inn einhver skilyrði um að fólk þurfi að vera orðið 24 ára gamalt þegar það verður ástfangið og vill koma til Íslands. Ég get ekki séð að slík einangruð tilvik sem eflaust má einmitt rekja til þess að við erum sem þjóðfélag að laga okkur að því að það eru breyttir tímar og flutningur fólks sem er af erlendu bergi brotið er smám saman að aukast hingað til Íslands. Þetta eru miklu frekar dæmi um það að við erum sjálf í aðlögun ekki síður en það fólk. Og einmitt í slíku ferli koma svona dæmi upp. En þetta eru ekki vandamál sem ekki er hægt að leysa. Þetta eru bara smámunir. (GHall: Ég vona það.) Að tilgreina einhverja slíka smámuni, svona einangruð tilvik í umræðu um (Gripið fram í: Láttu ...) svo alvarlega hluti eins og breytingu á útlendingalögunum sem við höfum verið að ræða í allan dag og munum eflaust ræða lungann úr morgundeginum líka, finnst mér ekki hæfa, frú forseti.