Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 17:01:47 (7206)

2004-04-29 17:01:47# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Sé lagafrv. þetta ekki eins strangt og dönsku lögin heldur mildara þá fagna ég því. En af hverju kemur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og mótmælir í andsvörum við mig? Af hverju kom hann ekki upp í andsvör þegar Kolbrún Halldórsdóttir sagði hið sama fyrr í dag? Ég hlustaði á hana. Hún er áheyrnarfulltrúi í allshn. og var þar á flestum fundum. Hún sagði eitthvað á þá leið að fyrir nefndina hafi danska frumvarpið verið lagt í enskri þýðingu og frv. sem hér er til umræðu væri mun strangara. Ég tók mark á þessum umræðum Kolbrúnar Halldórsdóttur og þeim var ekki mótmælt fyrr í dag. Hvar voruð þið þá? (BjarnB: Þeim var mótmælt.) Ég heyrði ekki þau mótmæli.

Í sambandi við 24 ára regluna, gott og vel, hún á að koma í veg fyrir málamyndahjónabönd, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði. Af hverju ekki að draga þessa línu við 40 ár? Hver eru rökin fyrir því að velja þennan aldur, 24 ár? Það væri gaman að heyra nánari útlistun á því.

Varðandi 15. gr. þá talar hv. þm. um að þetta sé venjulegur praxís í allri löggjöf. Það kann vel að vera en mér finnst þetta ómannúðlegt. Mér finnst þetta ósanngjarnt. Ég hlýt að mega koma upp og láta það í ljós ef ég sé lagaákvæði, einhverja setningu í lögum, sem mér finnast ósanngjörn. Ég hef fullan rétt til að segja það og ég taldi mig rökstyðja það ágætlega áðan. Ég sagði að mér fyndist þetta ósanngjarnt, burt séð frá því hvort menn beita hér einhverju ísköldu mati á því að jafnt skuli yfir alla ganga. Það breytir því ekki að þetta er óréttlátt, frú forseti.