Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 17:43:16 (7211)

2004-04-29 17:43:16# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði hér prýðilega fyrir brtt. sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Samf. standa sameiginlega að, fulltrúar þessara tveggja flokka í efh.- og viðskn. þingsins. En 1. flm. tillögunnar er hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Í rauninni er þessi brtt. sem frá okkur er komin í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að nota skattkerfið til að stuðla að notkun á umhverfisvænum farartækjum. Samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar er hugmyndin sú að vörugjöld af ökutækjum sem nota umhverfisvæna orku verði lægri en af öðrum farartækjum svo nemi 120 þús. kr. En samkvæmt þeirri tillögu sem við leggjum fram á heimild til handa hæstv. fjmrh. að ganga út á að þetta gjald verði fellt niður að fullu.

Í athugasemdum sem fylgja lagafrv. ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Innflutningsverð tvíorkubifreiða er alla jafna nokkru hærra en hefðbundinna ökutækja og er heimildinni ætlað að gera þær samkeppnisfærari á almennum markaði. Markmiðið með framlengingunni er að styðja áfram við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum. Einnig hefur verið bent á að notkun tvíorkubifreiða sé nauðsynlegt skref í frekari þróun í framleiðslu bifreiða sem eingöngu verða knúnar öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu.``

Hér eru í raun færð fram ágæt rök fyrir þessum breytingum. Munurinn á stefnu okkar í stjórnarandstöðunni, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Samf. annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar er sá að við viljum ganga lengra í þá átt að lækka innflutningsverð bifreiða sem knúnar eru vistvænni orku en ríkisstjórnin vill gera.