Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 18:04:44 (7214)

2004-04-29 18:04:44# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, Frsm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frv. sem við ræðum hér er á forræði þingsins, ekki ráðherrans lengur. Hv. efh.- og viðskn. hefur fjallað um málið þannig að það er á forræði þingsins og ef einhver á að vera faðir þess og móðir eru það væntanlega fulltrúar úr efh.- og viðskn. sem ég veiti forstöðu. Ég er sennilega pabbinn. Málið er ekki munaðarlausara en það.

Hv. þm. sagði að við gerðum lítið í umhverfismálum. Ég er bara ekki sammála því. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi komið af stað mjög mikilli tilraun í vetnisvæðingu, tilraun sem hugsanlega getur haft áhrif um allan heim. Það vill svo til, frú forseti, að heimurinn er einn þannig að ef okkur tekst að finna upp nýja vél á Íslandi sem notar vetni og ef það skyldi minnka mengun minnkar það mengun um allan heim. Mengunin er einmitt án landamæra, frú forseti.

Auk þess vil ég benda á að við höfum farið út í stórmiklar framkvæmdir í því að breyta íslenskum fallvötnum í ál sem sparar óhemjumikla mengun. Á sama tíma og við reisum álver á Íslandi er verið að reisa álver í Suður-Afríku sem notar heilu fjöllin af kolum á ári til að framleiða raforku til að búa til það ál. Það er aldeilis umhverfissparnaður fyrir heiminn allan að við skulum framleiða ál á Íslandi.