Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 18:06:30 (7215)

2004-04-29 18:06:30# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að stofna til faðernisdeilu um frv. Hv. þm. Pétur H. Blöndal má vel eiga á því faðerni núna, enda er það rétt hjá hv. þingmanni að málið er í höndum þingsins nú. Það breytir ekki hinu að það hefði verið (Gripið fram í.) --- ég mun koma að því --- það hefði ekki verið lakara að hafa hér hæstv. ráðherra, fjmrh. eða t.d. hæstv. umhvrh., til að svara fyrir málaflokkinn. Þeir fara þó með framkvæmdarvaldið í málinu í öllu falli.

Mér varð það á að nefna að hv. þm. Hjálmar Árnason væri trúboði úti í löndum um vetnisvæðingu. Það er mikill misskilningur að hann sé upphafsmaður að þeim hugmyndum. Þar mundum við fyrstan frægan telja prófessor Braga Árnason, gamlan læriföður minn úr háskólanum, sem með þrotlausri elju kom þeim hugmyndum á framfæri á yfir 20 ára skeiði þangað til eyru ráðamanna fóru loksins að opnast. Háskóli Íslands, ýmsar rannsóknastofnanir og fleiri vísindamenn hafa lagt þar vel af mörkum en hv. þm. Hjálmar Árnason hefur síðan orðið einhvers konar pólitískur verkstjóri Framsfl. í þessu máli og fer mikinn í þeim efnum sem er ágætt. Þetta er geysilega áhugavert mál og spennandi að það skuli vera framtíðarmál. Það er enn langt í land að menn nái tökum á þeirri tækni, þ.e. að geyma orku í formi vetnis sem auðvitað er ekki uppspretta orku heldur eingöngu geymslumiðill. Menn verða líka að átta sig á því og misskilja ekki málið. Vetnið þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að geyma orku sem er framleidd með öðrum hætti og getur verið gagnlegt sem slíkt og það hefur þann mikla kost að þegar orkan er losuð og vetnið brennt fylgir því ekki mengun.

Kemur svo enn gamla tuggan um það hversu umhverfisvænt það sé að við Íslendingar hrúgum niður álverum, að við breytum íslenskri náttúrugersemi í ál. (Gripið fram í.) Hv. þm. hefur t.d. þá alls ekki áttað sig á því hvernig loftslagssamningum SÞ er ætlað að virka. Menn verða að kaupa út losunarkvóta ef þeir ætla að reisa álver annars staðar, ekki hér á Íslandi þannig að færa má rök fyrir því að þetta sé akkúrat öfugt (PHB: Ekki trúir...) vegna undanþágunnar sem Ísland hefur. Hv. þingmaður og aðrir slíkir sem halda slíkri firru fram verða að fara að átta sig á því hvaða grundvallaratriði gilda í þessum efnum.