Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 18:09:09 (7216)

2004-04-29 18:09:09# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að eftir þessa prýðilegu umræðu er hjarta mitt slegið nokkru angri þegar ég sé að hv. þm. Hjálmar Árnason hefur gufað upp og er ekki lengur staddur hér. Ég sá að hann rak inn andlitið áðan, sólbrúnn og fagur, og mér fannst vel í veiði bera því að við höfum einmitt átt orðastað, ég og hv. þm. Hjálmar Árnason, í tilefni af nákvæmlega þessum málum sem við erum að ræða.

Þegar ég reifaði stefnu Samf. við 1. umr. þessa máls vildi svo til að hv. þm. Hjálmar Árnason kvað enga þörf á að samþykkja þessa brtt. eða nokkrar breytingar í þessa veru. Svo vel stæði nefnilega á að fyrir hans góða tilstilli væri í gangi nefnd einhvers staðar utan þessara sala sem væri að búa til heildstæða stefnu fyrir ríkisstjórnina. Það var ekki í fyrsta skiptið sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði það. Þetta sagði hann líka fyrir jólin þegar málið barst í tal í tilefni af þeirri tillögu sem við lögðum fram í Samf. Þetta sagði líka hv. þm. í fyrra þannig að það virðist vera orðið hlutverk hv. þm. Hjálmars Árnasonar að koma í umræðu fyrir hönd stjórnarinnar þegar aðrir þingmenn koma með þingmál sem tengjast umhverfisvernd og -stefnu í þeim efnum, slá skildi fyrir stjórnina og segja að einhvers staðar víðs fjarri Alþingi séu menn á vegum ríkisstjórnarinnar að móta stefnu. Það bólar hins vegar aldrei á þeirri stefnu.

Því miður er staðan í þessu tiltekna máli sem við erum að ræða, þ.e. skattalegum ívilnunum af ríkisins hálfu til þess að ýta undir notkun ökutækja sem ekki menga með svipuðum hætti og þessi hefðbundnu, ákaflega flausturskennd. Það er í reynd engin stefna uppi í þeim efnum. Á tveimur eða þremur stöðum á stangli er að finna einhvers konar undanþágur í lögum þar sem verið er að ívilna, að því er virðist, án nokkurs sérstaks markmiðs tilteknum tegundum af bifreiðum varðandi ákveðna skatta. Bráðabirgðaákvæðið sem við erum að ræða hér er t.d. að finna í lögum nr. 29/1993 og þar er sagt að fella megi niður tiltekna upphæð af vörugjaldi sem greitt er af bifreiðum sem nota metangas eða rafmagn. Þessi upphæð er 120 þús. kr.

Ég hélt því fram, og ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi líka gert það í umræðu sem spannst fyrr í vetur, að þetta næði ekki til vetnisbifreiða. Ástæðan fyrir því að ég gerði það og taldi að það ætti að ráða bót á þeirri stöðu er auðvitað sú að við höfum heyrt ríkisstjórnarliðið fara mikinn þegar vetni er annars vegar. Það telur að þar sé komin sáluhjálp varðandi umhverfisvandann og við vitum að fyrir tilstilli Evrópusambandsins tókst að koma hér upp tilraunaverkefni, bæði varðandi dreifingu á vetni á einum stað og nokkra strætóa sem keyra á vetni. Þar af leiðandi var það fullkomlega skiljanlegt að ég héldi því fram að frv., eða ákvæði sem þá var enn í lögum, næði ekki yfir vetnið vegna þess að þar var einungis talað um metan og rafmagn. Þá kom hv. þm. Hjálmar Árnason í pontu og fór mikinn, sagði að það væri alveg bersýnilegt að formaður Samf. vissi ekki hvað hann væri að tala um, að hann skildi ekki málið rétt vegna þess að búnaðurinn sem þyrfti til þess að nýta vetnið sem orkugjafa byggðist að hluta til á rafmagni og þar af leiðandi fullyrti hann að vetnisbílar væru skilgreindir sem rafmagnsbílar að því er varðaði þetta ákvæði laganna. Ég tók það gott og gilt vegna þess að hv. þm. hefur slegið um sig, eins og formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs benti á áðan, og litið á sig sem guðs útvalinn þegar kemur að vetni.

Af rælni spurðist ég fyrir um þetta hjá fyrirtækinu sem rekur vetnisstrætóana, því fyrirtæki sem hefur haft frumkvæði að því að byggja upp vetnisframleiðslu á Íslandi. Ég sendi fyrirspurn mína til Jóns Björns Skúlasonar hjá Nýorku og svar hans var alveg afdráttarlaust. Vetnisbílarnir falla ekki undir þetta ákvæði. Þó eru vetnisbílarnir það sem við erum að horfa á til framtíðar.

Nú vill svo til að hér eru í salnum a.m.k. þrír sem hafa einhvern tíma komið nálægt borgarstjórnarmálum í Reykjavík. Reykjavíkurborg hefur sýnt ákaflega lofsvert frumkvæði við að reyna að nýta metan. Þegar lífrænn úrgangur gerjast fyrir tilstilli örvera framleiðist töluvert mikið af metangasi. 44 bílar á vegum borgarinnar ganga í dag fyrir metangasi. Þetta eru fyrst og fremst bílar sem borgin á en ég held að það séu ákaflega fáir ef nokkrir einstaklingar sem notfæra sér þetta. Skyldi það vera vegna þess að það er ekki til nógu mikið metan? Nei, það er ekki svo.

[18:15]

Það metan sem fellur til eingöngu af hálfu Reykjavíkurborgar dugar til þess að knýja 5 þús. bifreiðar. Væri ekki munur ef við hefðum 5 þús. bifreiðar á götum Reykjavíkurborgar sem notuðu ekki hefðbundið eldsneyti heldur metan? Það mundi skipta töluvert miklu máli. Það mundi leiða til þess --- í snörpum hugarreikningi sem er byggður á upplýsingum frá veitustofnunum Reykjavíkurborgar --- að út í andrúmsloftið færu sem næmi 15 þús. tonnum minna af skaðlegum lofttegundum. En af hverju hefur enginn ráðist í það að kaupa sér metanbíl sem fjölskyldubifreið? Það er vegna þess að þær eru svo dýrar, kosta svo mikið. Ef um væri að ræða einhverja heildstæða stefnu af hálfu stjórnvalda til þess að nota þetta sem er þó í dag sannanlega endurnýjanlegur orkugjafi sem fellur til innan lands sem við erum að safna í dag hefðu menn að sjálfsögðu farið þá leið að efla enn frekar hvatann handa mönnum til að kaupa slíkar bifreiðar.

Ég skal ekki segja undir hvaða flokk metanbílar mundu falla en ég ímynda mér að þeir hljóti að falla undir 30% vörugjaldsflokkinn. Ef farin yrði sú leið sem við þingmenn Samf. og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum til lækkaði vörugjaldið um 300--400 þús. kr. til viðbótar við þau 120 þús. sem það lækkar samkvæmt núverandi frv. sem samþykkt var við 2. umr. Það munar um minna. --- Og nú sé ég, frú forseti, mér til mikillar gleði að hv. þm. Hjálmar Árnason er kominn í grennd við þingsalinn og væntanlega til þess að leggja orð í belg.

Ég kom þar niður í ræðu minni áðan, greindi frá því og rifjaði upp að í hvert einasta skipti sem við höfum rætt þessi mál sem hefur verið þrisvar á síðustu 12 mánuðum hefur hv. þm. Hjálmar Árnason komið hingað og sagt að það sé allsendis óþarft að samþykkja einhverja tillögu frá stjórnarandstöðunni sem lýtur að því að greiða leið ökutækja inn í samgöngur Íslendinga sem byggjast á öðru en hefðbundnu eldsneyti vegna þess að merkileg nefnd sem hann hafði ekki bara frumkvæði að með tillöguflutningi á Alþingi að því er mér skildist, heldur á líka sæti í væri önnum kafin við það að móta einmitt þessa stefnu.

Það er ekki hægt, frú forseti, að í hvert einasta skipti sem þessi mál berast með þessum hætti inn í sali Alþingis komi hv. þm. og greini okkur frá því að einhvers staðar úti í bæ sé verið að móta þá stefnu. Hvenær kemur þessi stefna? Ég spyr hv. þm. Hjálmar Árnason: Hvenær kemur fram sú stefna sem á, svo ég rifji upp eftir rosknu minni, að vera heildstæð stefna varðandi skattalaga meðferð á ökutækjum og búnaði sem þarf til þess að nýta innlenda, endurnýjanlega orkugjafa inn í samgöngur Íslendinga? Það væri þarft held ég ef hv. þm. gæti sagt okkur frá því.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon drap á það áðan að sú grein sem við erum að véla um væri hugsanlega eina ákvæðið í gildandi lögum sem ívilnaði bifreiðum sem ganga fyrir óhefðbundnu eldsneyti. Það er ekki alveg svo. Ég sagði áðan að það virtist sem stefna ríkisstjórnarinnar væri næsta handahófskennd vegna þess að til eru fleiri ákvæði, t.d. bráðabirgðaákvæði eða ákvæði sem ganga mjög skammt. Fyrir utan þetta ákvæði sem hér er og er að finna í lögunum um vörugjald á ökutækjum og eldsneyti sem við samþykktum skömmu eftir að ég tók í fyrsta skipti sæti á hinu háa Alþingi, þ.e. árið 1993, er fleiri ákvæðum til að dreifa. Ég hélt því fram fyrr í vetur þegar ég átti svolitla orðræðu við hv. þm. Hjálmar Árnason að þetta ákvæði heimilaði ekki afslátt af vörugjaldi í tilviki bifreiða sem nýta vetni. Sérfræðingur Framsfl. og ríkisstjórnarinnar hélt hins vegar öðru fram. Hann taldi það bera vott um fáfræði mína og vanþekkingu á málinu að ég héldi þessu fram. Í allri þeirri hógværð sem mér er af guði gefin hafði ég þó manndóm í mér til að koma hingað eftir ræðu hv. þingmanns og segja ranglega að hann væri mér greinilega fremri um allt það sem að þessu lyti og að ég vildi ekki deila við hann. En eins og ég hef upplýst fyrr í ræðu minni skaut ég af mikilli rælni spurningu um þetta tiltekna atriði til forstöðumanna Nýorku og af enn meiri rælni leit ég í póstinn minn rétt áðan og sá að mér hafði borist svar. Samkvæmt því svari falla vetnisbílarnir ekki undir þetta ákvæði og þá vænti ég af þeirri hógværð og lítillæti sem framsóknarmanninum hv. þm. Hjálmari Árnasyni er gefið samkvæmt sínu góða Suðurnesjaeðli komi hann líka hér upp og viðurkenni að hann hafi farið hér rangt með staðreyndir um þetta tiltekna mál fyrr í vetur.

Ég var kominn þar máli mínu þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gekk í salinn að ég hafði vísað til þeirra orða hans að hugsanlega væri þetta eina ákvæðið sem varðaði skattalegar ívilnanir til ökutækja af þessu tagi en það er ekki alveg svo. Það er ekki von að þingmenn geri sér almennt grein fyrir því enda er engin heildstæð stefna í þessum efnum. Það var bráðabirgðaákvæði í eldri lögum, lögum frá 1987 sem fjalla um fjáröflun til vegagerðar, sem kvað á um að bifreiðar sem notuðu í tilraunaskyni annan orkugjafa en hefðbundið eldsneyti skyldu vera undanþegnar greiðslu af þungaskatti. Það er mikilvægt ákvæði og þar er fortakslaust frá því greint samkvæmt hljóðan þeirra orða sem þar standa --- ég dreg þá ályktun að það nái yfir bæði tvinnbíla, þ.e. þá sem nota bæði óhefðbundið og hefðbundið eldsneyti, og sömuleiðis bíla sem nota bara óhefðbundinn orkugjafa --- a.m.k. túlka ég það svo að vetnisbílar þurfi ekki að greiða þungaskatt. En af því að við höfum þennan ágæta sérfræðing, hv. þm. Hjálmar Árnason, hérna hjá okkur langar mig til að spyrja hann: Er það rangt skilið hjá mér í þessum lögum að þetta ákvæði hafi líka runnið út fyrir skömmu? Ef það er svo, er þá ekki líka rétt hjá mér að væntanlega sé í ákaflega fá skjól að leita fyrir þá sem vilja einhvers konar varanlegan hvata til þess að ýta undir þetta? Ég sagði fá skjól því að það er þó a.m.k. eitt skjól sem er varanlegt. Til eru lög --- ég man nú ekki lengur hvaða lög það eru --- þar sem tekið er fram að ökutæki sem nota annað en hefðbundið eldsneyti með vissum skilyrðum hafi varanlega undanþágu og þurfi ekki sérstaka heimild hæstv. fjmrh. Þetta sýnir okkur hins vegar að þessi ákvæði hafa verið sett við aðstæður þar sem menn hafa vissulega verið að reyna að horfa fram á við og gera jákvæða hluti. Þessi ákvæði eru, svo ég noti ein frægustu ummæli allra síðustu vikna um stjórnmálin, barn síns tíma. Um það er hv. þm. Hjálmar Árnason mér sammála og þess vegna hefur hann reynt að beita sér fyrir því að sett verði heildstæð stefna í þessum efnum. Það bara bólar ekkert á henni. Af því að svo vel ber í veiði að hv. þm. er hér á meðal vor, fallegur og brúnn, og hefur þessa nánd við nefndina sem á að véla um þessi mál langar mig til að spyrja hann: Með hvaða hætti hefur sú nefnd tekið á þeim válegu tíðindum sem hingað hafa borist í gegnum fulltrúa Alþingis í Norðurskautsráðinu, þingmannanefndinni, að hin válega þróun sem birtist í hlýnun andrúmsloftsins gangi nú miklu hraðar fyrir sig en menn töldu áður?

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir greindi frá því fyrr í vetur að þróunin væri tvöfalt hraðari. Hún byggði það á áliti virtustu sérfræðinga veraldar sem Norðurskautsráðið fékk sér til ráðgjafar. Þetta þýðir, frú forseti, að sú aðgerðaáætlun sem við og umheimurinn áður töldum nauðsynlega og þarfa til að bregðast við þróun sem menn töldu að væri í gangi dugar ekki. Þetta þýðir í reynd að menn þurfa að vera djarftækari og taka fastar á til að koma böndum á þessa þróun. Þá hlýtur að koma til kasta nefndarinnar sem hv. þm. Hjálmar Árnason hefur svo oft notað sem skjöld til varnar gegn þeim röksemdum sem við stjórnarandstæðingar höfum teflt fram um nauðsyn aðgerða.

Við Íslendingar erum lítil þjóð og það sem við látum frá oss fara út í umhverfið er kannski ekki nema örlítið brot af því sem heimurinn sameiginlega mengar. Við höfum samt siðferðilegar skyldur í þessum efnum en okkur stendur líka málið nær en mörgu öðrum. Ástæðan er sú að einfaldlega fáar þjóðir ef frá eru taldar nokkrar eyþjóðir í sunnanverðu Kyrrahafi eiga jafnmikið undir að geta stemmt þessa þróun. Þær þjóðir sem búa undir norðurheimskautinu eins og við verða þær sem hugsanlega verða fyrst og erfiðast úti í þessum efnum. Við gætum hugsanlega lent í því að hafstraumar mundu hægjast og jafnvel stöðvast og við vitum að það eru kaldir straumar norður úr hafinu sem skipta mjög miklu máli. Ef þungi þeirra eykst er mögulegt eins og fram hefur komið að Golfstraumurinn sem er sú náttúrufræðilega staðreynd sem gerir Ísland byggilegt mundi hætta að streyma norður undir Ísland og vestur með landinu. Það mundi ekki aðeins breyta hitafari á Íslandi og gera landið a.m.k. að lokum heldur þyngra --- miklu þyngra --- til íbúðar en núna heldur mundi það flytja burtu straumaskilin sem eru undirstaða gríðarlegrar frumframleiðni í hafinu sem aftur kveikir af sér átuna sem uppsjávarfiskarnir eta og síðan nærast botnfiskarnir aftur á þeim. Af því að ýmsir hv. þm. hafa áhuga á hvölum eru það þeir sem eru síðan efst í fæðukeðjunni og leggja sér að því er sagt er í allt of ríkum mæli botnfiskana til munns.

Hér er alvarleg þróun í gangi. Það kom fram í umræðum um fiskveiðar fyrir örfáum vikum að við erum að sjá það í fyrsta skipti núna að mokveiði í hafi að því er botnfisk varðar er að færast fjær og norðar. Í fyrsta skipti frá því að sögur hófust hafa menn fengið mestan afla af þorski 30 mílur norður af Kolbeinsey. Ekki skal ég skýra þetta en hugsanlega mætti skýra þetta með því að hitaskilin færist, átan færir sig og þar af leiðandi þorskurinn.

[18:30]

Ég ætla ekki, frú forseti, að tefja umræðuna með því að fara mjög djúpt út í fiskifræði en ég nota þetta til þess að skýra fyrir hv. þm. Hjálmari Árnasyni alvarleika málsins, að það sem atvinnulíf okkar nærist og grundast á er í hættu. Þess vegna höfum við tvöfaldar siðferðilegar skyldur í þessum efnum. Við þurfum að verja okkar eigin framtíð, ekki endilega okkar sem stöndum í þessum sal heldur þeirra niðja sem af okkur munu spretta. Við þurfum að gera allt sem við getum til að haga málum þannig að framtíðin verði þeim ekki bara bærileg heldur góð.

Í annan stað er önnur siðferðileg skylda sem á okkur hvílir, sú að sérstakar náttúrulegar aðstæður gera það að verkum að við eigum að geta verið í fararbroddi í þessum efnum. Mig minnir að ég hafi heyrt hv. þm. Hjálmar Árnason segja þetta um það bil tíu sinnum. Þá er ég ekki bara að tala um þær ágætu ræður sem hv. þm. hefur haldið um þetta efni í þingsölum heldur í ýmsum góðum viðtölum sem tekin hafa verið við hann jafnt innan lands sem utan. Ákaflega fáar þjóðir geta búið til endurnýjanlegt eldsneyti án þess að sú framleiðsla í sjálfu sér leiði til einhverrar losunar á gróðurhúsalofttegundum. Í öðrum löndum þar sem menn hafa verið að nota það sem er að vísu enn þá flokkað sem grænt eldsneyti, græn orka eins og náttúrulegar gastegundir, til að búa til vetni eða annað sem við getum flokkað með þessum hætti fellur samt sem áður alltaf til við framleiðsluna eitthvað af slíkum lofttegundum. Hér á Íslandi þar sem við notum vatnsföllin og jarðhitann er nettóumhverfiskostnaðurinn miklu minni en annars staðar. Við getum þess vegna orðið útflytjendur slíkrar orku. Ég tel a.m.k. að það ætti að vera mögulegt. Sérstaklega vil ég rifja það upp hér af því að hv. þm. Hjálmar Árnason sýnir okkur þann heiður að hlusta á þessa umræðu að einn af þeim mönnum sem hann hefur mest leitað til og oftast vísað til, prófessor Bragi Árnason við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, hefur einmitt af einstakri hugkvæmni bent á möguleika þess að nota meira að segja þessa orku í bland við útstreymi frá tilteknum stóriðjuverum á Íslandi til að búa til vetni eða slíkt efni, metanól, slá þar tvær flugur í einu höggi, bæði að draga úr losun skaðlegra lofttegunda sem fara beint út í andrúmsloftið frá þessum orkuverum og jafnframt að nota hreinu orkuna í vatnsföllunum og jarðhitanum til að búa til eldsneyti sem ekki skaðar nokkurn einasta mann. Við höfum sýnt ákveðið frumkvæði á þessu sviði, ekki síst fyrir hugarafl prófessors Braga Árnasonar og þar í liggur líka siðferðileg skylda okkar til þess ekki bara að halda forskotinu gagnvart okkar eigin þjóð heldur líka varða leiðina inn í framtíðina fyrir umheiminn allan.

Frú forseti. Ég tel þess vegna þegar allt er saman lagt það eiginlega skyldu þeirra þingmanna sem bera hag umhverfisins og vernd þess fyrir brjósti sér að samþykkja þessa litlu tillögu sem stjórnarandstaðan leggur fram. Ríkisstjórnin er þegar að framlengja bráðabirgðaákvæði sem gerir henni kleift að lækka vörugjald um 120 þús. kr. á þessu óhefðbundna ökutæki. Það eina sem við gerum er að segja: Göngum eilítið lengra, ýtum undir þennan hvata og fellum vörugjaldið alveg niður. Það er að sönnu partur af miklu stærri stefnumótun sem Samf. hefur lagt fram og hv. þm. Hjálmar Árnason telur óþarfa af því að hann á sæti í nefnd sem er líka að véla um það. Kostnaðurinn sem ríkið hefði af þessu næmi sem svaraði 300--400 þús. kr. á þeim ökutækjum sem falla undir 30% vörugjald og eftir þeim upplýsingum sem ég hef 4--70 þús. kr. á lægri flokkinn sem varðar ökutæki sem eru líka að einhverju leyti notuð til vöruflutninga. Það er ekki eins og að hér sé verið að ræða um gríðarlega mikið tekjutap fyrir ríkið.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hér er líka staddur og situr í efh.- og viðskn., (Gripið fram í: Formaður.) formaður hennar eins og frægt er orðið (Gripið fram í.) að endemum, hefur líka tekið til máls í þessari umræðu, að vísu ekki núna. Jú, hérna áðan, en líka fyrr og hv. þm. hugsar bara í beinum línum og skortir alla hliðarhugsun þegar kemur að þessu, bara í krónum og aurum. Hann metur ekki þann kostnað sem umhverfið þarf að gjalda, sem framtíð okkar geldur fyrir þessa þróun. Hv. þm. hefur margsinnis á undanförnum árum komið upp í svipuðum málum og sagt: Ef þið samþykkið þetta tapar ríkið tekjum. Hann hugsar ekki nógu langt, sér ekki að þegar til framtíðar kemur græðir ríkið á þessu vegna þess að ýmis annar kostnaður minnkar. Ef svo færi að ríkið yrði fyrir verulegu tekjutapi vegna þessa máls þýddi það það eitt að lögin hefðu náð tilgangi sínum, hefðu ýtt undir fjölda manns til þess að skipta yfir í óhefðbundin ökutæki. Sá er tilgangurinn. En ég get auðvitað glatt hv. þm. Pétur H. Blöndal með því að þessi tillaga er svo saklaus að ef til þess kæmi er hér einungis um heimild að ræða til hæstv. fjmrh. og hann gæti þess vegna fellt hana niður.

Auðvitað verður uppi allur annar óður þegar núverandi ríkisstjórn fer frá og Samf. og eftir atvikum aðrir stjórnmálaflokkar koma að völdum landsins því að þá setjum við þessi mál ekki bara í nefnd. Þá verður annarri stefnu í framkvæmd hrint.