Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 18:37:40 (7217)

2004-04-29 18:37:40# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Ég vil ekki lengja umræðuna en vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samf., fyrir afskaplega fræðandi ræðu þrungna af fróðleik, framtíðarsýn og tilfinningum í þessu máli þó að mér fyndist hann kannski einum of persónugera ýmis mál sem þessu efni tengjast. (ÖS: Það var viðurkennt af þér.)

Það er reyndar svolítið merkilegt að hér er til umræðu frv. um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti en hv. þm. var farinn að ræða um göngur hvala og þorska, kominn norður fyrir Kolbeinsey og má sjá af því að þetta er afskaplega yfirgripsmikið mál.

Hv. þm. beindi til mín nokkrum spurningum og skal ég reyna af virðingu fyrir hv. þingmanni að bregðast við þeim. Hv. þm. vitnaði í fulltrúa okkar í Norðurskautsráðinu, hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem hefur upplýst þá umræðu sem fram hefur farið í Norðurskautsráðinu og víðar, svo sem að útblástur og hækkun vegna gróðurhúsaáhrifa gerist með allt að tvöfalt meiri hraða nú en áður var. Þetta er mjög mikið álitamál og eins og hv. þm. veit greinir vísindamenn mikið á um það hvað valdi hinu hækkaða hitastigi á jörðu. Er það af manna völdum eða eru það náttúrulegar sveiflur sem þar eiga sér stað? Við því eru ekki til nein óyggjandi svör og vísindamenn greinir á um það. Besti rökstuðningur sem ég hef heyrt fyrir því er að það muni ekki vera nema 10--12 þús. ár síðan hér var ísöld. Þegar sú ísöld brast á og þegar síðan þar á undan var hlýviðrisskeið voru hvorki til sprengivélar, dísil-, bensín- né aðrar slíkar og ekki útblástur af manna völdum. Ísaldar- og hlýviðrisskeið benda auðvitað til þess að um náttúrulegar sveiflur sé að ræða.

Hitt munu menn þó vera nokkuð sammála um, að eitt af meginvandamálum í byggðum heims sé útblástur af völdum bíla, þá fyrst og fremst staðbundið vandamál, eða a.m.k. líka svo að maður útiloki ekki þessi glóbaláhrif sem útblástur veldur. Þannig er ætlað að þúsundir manna deyi á ári hverju í Bretlandi einu, enn fleiri líklega í Bandaríkjunum og öðrum þéttbýlum stöðum, eingöngu vegna útblásturs frá bílum sem hafa notast við sprengivélina og eru knúnir áfram af jarðefnaeldsneyti. Þar er nýtingin aldrei meiri en um það bil 25%. Hitt gengur út í andrúmsloftið og veldur þessari skaðlegu mengun. Þess vegna hafa menn verið að bregðast við, rétt eins og gert var fyrir 100 árum áður en bílaöldin gekk í garð. Þá voru hestar eitt aðalsamgöngutækið í borgum heimsins og menn nutu þeirra svo sem ágætlega en þar kom að að íbúar stórborganna kvörtuðu og bentu á göturnar sem voru að fyllast af hrossaskít. Eitt aðalvandamál gatna New York borgar var hrossaskítur. Menn vildu fá nýja tækni hvað varðaði samgöngur, upp kom T-módelið af Ford og í kjölfarið bílaöldin sem hefur verið síðustu árin. (Gripið fram í.) Nú er hrossaskítur hins vegar ekki vandamálið í stórborgunum heldur hefur auðvitað vitundin og þekkingin breyst. Nú er það mengun, annars konar skítur má segja, þessi útblástur sem veldur dauða, sjúkdómum og miklum kostnaði fyrir þjóðfélagið.

Þess vegna er því spáð að á 21. öldinni muni vetnisbílar knúnir efnarafölum verða ráðandi. Hv. þm. benti á þá hugmynd sem okkar ágæti prófessor Bragi Árnason hefur kynnt, að gera stóriðjuna hér algjörlega vistvæna með því að nýta metanið í útblæstrinum, skella því saman við vetni og búa þannig til metanól sem yrði notað á efnarafala.

Nú hafa bílaframleiðendur almennt fallið frá þessu vegna þess að það er ekki alveg hrein umhverfisstefna í samgöngunum. Þar er einungis verið að færa útblásturinn frá stóriðjunni út í vetnið, búa til metanól sem er skellt á bíla og af því kemur mengun. Þess vegna eru bílaframleiðendur heimsins í dag að horfa á efnarafala og vetni.

Það er þessi staðbundna mengun af útblæstri bíla sem menn eru að glíma við. Hvað höfum við Íslendingar verið að gera? Við höfum boðið Ísland sem tilraunavettvang á þessu sviði og einmitt af ástæðum sem hv. þm. hefur m.a. nefnt í sinni löngu og ágætu ræðu, að við höfum ýmsa góða kosti. Við erum lítið eyríki. Við höfum reynslu af því að skipta um eldsneyti, eins og þegar við fórum úr kolum og olíu yfir í heitt vatn og rafmagn frá vatnsorkuverum okkar. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa reynslu af þessu. Þetta er einn af þeim kostum sem við getum boðið. Við erum lítið ríki, við höfum lítinn infrastrúktúr og erum kjörinn vettvangur til að keyra nýja tækni. Við þessu hafa bílaframleiðendur einfaldlega brugðist mjög vel.

[18:45]

Ég verð hins vegar að leiðrétta örlítinn misskilning sem fram kom hjá hv. þm. Það var ekki örgrannt um að mér fyndist hv. þm. vera ögn sár að ég skyldi leiðrétta hann fyrir nokkrum vikum og hann heldur því enn fram að frv. nái ekki til vetnisbíla. Það er rangt. Ég fullyrði það við hv. þm. að það er rangt. Vetnisbílar eru skilgreindir sem rafmagnsbílar og eins og áður hefur komið fram er munurinn á vetnisbílum og hinum hefðbundnu rafmagnsbílum sá að hinir hefðbundnu rafmagnsbílar og batterísbílarnir sækja rafmagnið inn á línurnar, inn á hið almenna kerfi þar sem þeim er stungið í samband, og hlaða rafmagninu á batteríin og keyra síðan meðan það endist, á meðan vetnisbílarnir fá vetni og framleiða rafmagnið um borð í bílunum. Það er munurinn en hvorir tveggja eru knúnir áfram af rafmagni enda eru rafmagnsvélar í vetnisbílunum. Það eru rafmagnsvélar sem eru við hjólin á þeim, fjórar litlar rafmagnsvélar sem knýja bílana áfram. Frumvarpið gildir því að öllu leyti um vetnisbíla eins og venjulega rafmagnsbíla, enda hafa verið fluttir inn vetnisbílar, gamaldags rafmagnsbílar og metangasbílar. Ætli þeir séu ekki u.þ.b. 20 talsins sem aka um á götum höfuðborgarinnar.

Þá verð ég líka að leiðrétta hv. þm. að sú nefnd sem ég stýrði fjallar ekki um stefnumörkun varðandi gjaldtökuna. Flutt var þáltill. og hin mjög svo framsýna iðnn. á síðasta kjörtímabili afgreiddi þá tillögu. Í henni felst að hvert þeirra ráðuneyta sem helst koma að málinu, það er ekki einungis iðnrn., það eru samgrn., fjmrn., umhvrn. og sjútvrn. vegna þess að þetta nær til skipaflotans líka, og líklega einhver önnur ráðuneyti, tilnefni sinn fulltrúa ásamt fulltrúum Íslenskrar NýOrku. Sú nefnd er núna að störfum. Hvað á hún að gera? Hún á einmitt að marka þá stefnu til framtíðar með hvaða hætti við eigum að standa að gjaldtöku þegar vetnisbílar verða orðnir almennir í innflutningi. Þá hættum við að fjármagna vegakerfið t.d. með skatti á bensín og þá þurfum við að svara þeirri grundvallarspurningu: Ætlum við að leggja skattinn á vetnið? Ég er þeirrar skoðunar og sé það til framtíðar að það muni ekki gerast en ríkissjóður muni einmitt ná í þær tekjur sem tapast við það að bensínskatturinn hverfur af því sem hv. þm. nefndi einmitt sjálfur, útflutningi á vetni þar sem við eigum gífurlega möguleika. Og þeir eru það raunhæfir að fyrir u.þ.b. tíu árum var stofnað í Þýskalandi sameignarfyrirtæki margra stórra og þekktra þýskra fyrirtækja sem heitir hvorki meira né minna en Die Isländische Wasserstoffvereinigung, eða Hið íslenska vetnisfélag.

Hvert skyldi markmið þess félags vera? Það hélt mikinn blaðamannafund í Hamborg, ef ég man rétt, í hittiðfyrra, í október, þar sem það vígði vetnispumpur og þó voru ekki komnir neinir bílar á götur Hamborgar. Og hvers vegna var Die Isländische Wasserstoffvereinigung að gera þetta? Það var til þess að vekja athygli á því að þeir hafa aðeins eitt markmið, þ.e. að flytja vetni til Þýskalands frá Íslandi þegar vetnisöldin gengur í garð í Þýskalandi.

Ég hygg, virðulegi forseti, að á milli mín og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sé ekki ágreiningur um málið, en ég kom þó fyrst og fremst til að leiðrétta misskilning, annars vegar um skilgreiningu á vetnisbílum sem rafmagnsbílum, sem þeir vissulega eru, og hins vegar að stefnumörkun til framtíðar, róttæk stefnumörkun sem nær yfir vegafé, yfir það hvernig skattleggja á þessa bíla, er núna í gangi þar sem er fjölskipuð nefnd frá hinum aðskiljanlegustu ráðuneytum ásamt fulltrúum Íslenskrar NýOrku, sem eru fróðastir Íslendinga í þessu máli, og ég vænti mikils af þeirri framtíðarsýn sem þeir skapa. Ég vona að með þessu sé ugg hv. þm. létt. Við erum sammála um málið og ég hygg að það sé í afskaplega góðum farvegi.