Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 18:49:07 (7218)

2004-04-29 18:49:07# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru auðvitað allt saman mál sem við hefðum getað rætt til þrautar í nefndinni ef tími hefði unnist til og vilji hjá þeim sem þar stýra verkum.

Hvað varðar það sem hv. þm. sagði um þróunina þá verð ég að segja að það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir að hv. þm. Hjálmar Árnason virðist draga í efa það sem flestir ef ekki allir virtustu fræðimenn á þessu sviði segja um þessar mundir. Hann telur að það sé rangt. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þm. Hjálmar Árnason væri í reynd að segja að vafi léki á því að hlýnun andrúmsloftsins stafaði af hinni skaðlegu losun gróðurhúsalofttegunda. Ég hef ekki heyrt það af munni nokkurs framsóknarmanns fyrr, ég hef ekki heyrt það af munni nokkurs þingmanns nema hv. þm. Péturs H. Blöndals, en það eru mörg ár síðan hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði það og a.m.k. að þessu leyti hefur mér stundum heyrst að hann hafi vitkast og hefði ég gjarnan viljað að það væri á fleiri sviðum líka.

Reglulegar ísaldir hafa alltaf komið í sögunni og þær munu halda áfram að koma vegna þess að þær stafa af breytingum á gangi himintungla og möndulhalla jarðar sem breytist og þá koma ísaldir. Það sem við erum að reyna að forða núna er að það verði einhvers konar þróun sem geri það að verkum að ísöld bresti á núna eða með tiltölulega skömmum fyrirvara. Eitt af því sem menn hafa séð í rannsóknum á borkjörnum í Grænlandsjökli er einmitt það sem menn vissu ekki áður að það getur gerst á einum mannsaldri. Það er hættan.

Varðandi það hvort hér sé um að ræða ákvæði sem nái yfir vetnisbíla þá segi ég bara að upplýsingar mínar um að ákvæðið nái ekki til vetnisbíla koma frá þeim sem hv. þm. sagði að væru fróðastir allra Íslendinga um þessi mál.