Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 18:51:22 (7219)

2004-04-29 18:51:22# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér enn að draga það í efa og hygg að hv. þm., sem er skarpur mjög, hafi eitthvað misskilið svör frá fulltrúum Íslenskrar NýOrku og ég held að við þurfum ekkert að fjalla frekar um það.

En ég vil þó leiðrétta það að ég var ekki að draga í efa skoðanir þeirra fræðimanna sem halda því fram að útblástur af manna völdum eigi sinn þátt í því að hér kunni að styttast í ísöld. Ég var hins vegar að benda á að það er ágreiningur meðal vísindamanna og ég minnist þess að hafa lesið í hinu virta tímariti Times Magazine þar sem var einmitt fjallað um hina almennu hækkun á hitastigi jarðar og voru dregin fram rök vísindamanna sem töldu það vera af mannavöldum og annarra vísindamanna sem drógu það í efa. Ég var í rauninni bara að vitna til þess. En ég deili með hv. þm. eins og allir aðrir áhyggjum af þeirri þróun sem á sér stað.

Jafnframt er líka rétt í þessu samhengi að benda á að framlag okkar Íslendinga til álvera og álmarkaðarins í heiminum er sennilega eitt stærsta framlag nokkurrar þjóðar til umhverfismála með því að við hleypum alþjóðasamfélaginu að okkar vistvænu orkugjöfum í stað þess að láta framleiða ál með kolum, olíu eða öðrum slíkum mengandi þáttum. Hv. þm. veit það.

Þrátt fyrir að við séum heimsmeistarar í því að nýta vistvæna orkugjafa, 67% af orku okkar er vistvæn orka, að meðaltali innan Evrópusambandsins, sem hv. þm. dáir mjög, er sama tala 5% og komast Evrópubúar sem aðrir ekki með tærnar þar sem við höfum hælana í þeim efnum, ætlum við samt að gera enn betur með vetnistækninni.