Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:30:44 (7233)

2004-04-29 20:30:44# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:30]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að við höfum engin tök á ytri áhrifunum í sambandi við þær kröfur sem gerðar eru nú til öryggis í höfnum hvað áhrærir útflutning frá Íslandi. En að tengja gjörðina sem við komumst ekki hjá beint við skattahækkanir Sjálfstfl. er mjög óraunhæft skot út í loftið. Hv. þm. kom réttilega inn á að hægt væri að spara með margvíslegum hætti. Ég tek alveg undir það. Ef litið er t.d. til allra hafnanna sem við rekum á Íslandi væri vissulega hægt að fækka þeim mjög. Það yrði mikill sparnaður af því.

Þá hlýtur hitt sjónarmiðið að koma fram: Er það rétt gagnvart hinni dreifðu byggð? Er það rétt í þeim anda sem við höfum hugsað okkur að halda byggð í landinu? Það er ekki alveg sama hvernig litið er á.

Munurinn á stöðu íslenskra hafna og þeirra erlendu er sá að í áratugi hafa erlendar hafnir verið lokaðar. Við sem höfum siglt á kaupskipum höfum komið í erlendar hafnir. Þær hafa verið klosslokaðar svo menn komast þar ekki nema með mjög mikilli skoðun og athugun. Hv. þm. kvartaði meira að segja yfir því fyrir ekki mörgum árum að hann gæti ekki tekið sinn venjulega sunnudagsbíltúr eða göngutúr inn um alla olíutankana í Örfirisey og þótti það miður þegar því var lokað öryggisins vegna. En allt um það.

Ég nefni sem dæmi að ekki er langt síðan þrír flóttamenn voru teknir í höfn í Kanada sem höfðu lætt sér um borð í íslenskt skip í Sundahöfn. Það gerist ekki þegar Reykjavíkurhöfn verður lokað.

Það kostar auðvitað fjármagn að loka höfnunum. Það er ein greiðsla varðandi öryggisþáttinn, en síðan er talið að það kosti einhvers staðar á bilinu 60--80 millj. kr. á ári að reka öryggiskerfið.