Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:38:32 (7236)

2004-04-29 20:38:32# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:38]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það eru einmitt ekki ungir menn í Sjálfstfl. sem velja þetta kerfi, það eru eldri menn í Sjálfstfl. sem hafa valið þessa leið. Það sem ég var að reyna að brýna hina ,,ungu Tyrki`` Sjálfstfl. í að gera var að standa við það sem þeir lofuðu í kosningabaráttunni og koma eftir atvikum vitinu fyrir þá sem eldri eru.

Frú forseti. Það gleður mig að undir umræðunni er kominn hv. þm. Gunnar Birgisson, félagi hv. formanns samgn., Guðmundar Hallvarðssonar. Hv. þm. Gunnar Birgisson hefur sagt að hann ætli ekki að fara út úr húsi fyrr en búið er að lögfesta tímasetningar á skattalækkunum. Hvernig er því svarað af félögum hans í Sjálfstfl.? Meira að segja hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem hefur staðið sína plikt að mörgu leyti í þessum efnum í gegnum árin, kemur hingað sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar og ver frv. sem í raun skopast að hv. þm. Gunnari Birgissyni, vegna þess að það felur í sér skattahækkun á íslenska neytendur sem sennilega má meta upp á 200 millj. kr. Ég spyr: Hvað ætlar hv. þm. Gunnar Birgisson að vera lengi fram eftir sumri til að reyna að hnekkja þessu?

Frú forseti. Málið er einfaldlega þetta. Hér er um að ræða ákveðnar framkvæmdir sem kosta peninga. Framkvæmdirnar eru óhjákvæmilegar, ég fellst á það. Við verðum að ráðast í þær og höfum tvenns konar val til þess að mæta kostnaðinum. Búa til skatta upp á 200 millj. kr. sem eru látnir sytra út til sveitarfélaganna, til hafnarstjórnanna og enda að lokum á neytendum eða að hagræða með skynsamlegum hætti í yfirstjórn ríkisins og mæta kostnaðinum þannig. Sjálfstfl. hefur valið og hann hækkar skatta í fimmta skipti á þessum vetri.