Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:42:57 (7238)

2004-04-29 20:42:57# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að ég og hv. þm. Halldór Blöndal áttum ákaflega gott samstarf í ríkisstjórn. Það er líka rétt að það kom fyrir að við sátum saman og ræddum landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel hin hinstu rök langt fram eftir kvöldi og stöku sinnum inn í nóttina. En ekki minnist ég þess þegar þeim kvöldstundum var eytt í umhvrn. að það fyndist á hv. þm. Halldóri Blöndal að það skorti nokkuð á það fé sem umhvrn. hefði til þess að fjármagna þær stundir a.m.k.

Ég vil líka segja að sem landbrh. flutti hv. þm. Halldór Blöndal ræður sem í minni mínu eru ódauðlegar og það er ekki lengra síðan en rösk vika að ég rifjaði upp eina af síðustu ræðum sem hv. þm. flutti hér sem landbrh. Það var síðla vors 1995 þegar hann lýsti yfir stuðningi við ákveðnar hugmyndir mínar sem vörðuðu eina af perlum íslenskrar náttúru, sem er Þingvallavatn. Ekki orð um það meir, aðeins um skattana.

Ég og hv. þm. Halldór Blöndal erum sammála um að nauðsynlegt sé að lækka skatta og draga úr útgjöldum ríkisins. Munurinn á mér og hv. þm. er sá að eftir að kosningabaráttu slotaði hurfu tillögur hans og Sjálfstfl. Ég lagði fram fyrir hönd Samf. útfærðar hugmyndir á skattalækkunum sem kæmu öllum til góða og hefðu í för með sér hagræði fyrir skattgreiðendur í landinu upp á 6 til 7 milljarða. Ég spyr: Hvar var strollan úr Sjálfstfl. þá? Hvar var stuðningurinn frá Sjálfstfl. þá? Hv. þm. Halldór Blöndal mætti láta nokkur spök orð falla um það.