Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:47:24 (7240)

2004-04-29 20:47:24# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Söguskýringar hv. þm. Halldórs Blöndals eru giska merkilegar svo ekki sé meira sagt. Hv. þm. rifjar það upp sem ég veit ekki hvaðan hann fær að Alþýðuflokkurinn á sínum tíma hafi slitið stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. út af matarskattinum. Má ég rifja það upp, frú forseti, að sumir úr Alþýðuflokknum, sem á þeim tíma sátu í ríkisstjórn með hv. þm., eru enn þá með skófarið á afturendanum eftir þau slit, því auðvitað var það með allt öðrum hætti sem sú ríkisstjórn fór frá völdum eins og hv. þm. man eftir. Matarskatturinn var ekki ástæða þess að hún fór og matarskatturinn kom nú á töluvert fyrir mína tíð. En hv. þm. verður alla vega að hafa þá reisn og sanngirni til að bera að viðurkenna, a.m.k. að því er þann þingmann varðar sem hér talar, að þá er batnandi mönnum best að lifa því það var eftir að ég kom inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn sem hann breytti afstöðu sinni til matarskattsins. (HBl: Ég var nú einmitt að hrósa þingmanninum fyrir það.)

Nú ætla ég að gefa hv. þm. tækifæri til þess að hrósa þeim þingmanni enn frekar vegna þess að það vill svo til að ég er nákvæmlega sömu skoðunar varðandi matarskattinn og hv. þm. Munurinn aftur á móti á mér og honum er þessi: Fyrsta málið sem Samf. lagði fram á þessum þingvetri var tillaga um að lækka matarskattinn um 6 milljarða. Það var tillaga um að hjálpa þeim sem hafa mest útgjöld vegna matarinnkaupa, með því að lækka lægra virðisaukaskattsþrepið úr 14% niður í 7%. Hvar var stuðningur hv. þm. Halldórs Blöndal við því? Hvar var stuðningur skattabaráttumannsins hv. þm. Gunnars Birgissonar? Og hvar voru allir hinir ,,ungu Tyrkir`` Sjálfstfl. þegar sú (Forseti hringir.) tillaga kom fram? Þeir gufuðu allir upp eins og dögg fyrir sólu eða héla á móti vormorgni.