Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 21:35:10 (7248)

2004-04-29 21:35:10# 130. lþ. 106.13 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[21:35]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fundust yfirlýsingar hv. formanns sjútvn. ekki vera alveg tækar. Það dugir ekki að segja að menn hafi tilfinningu fyrir því að þetta verði töluvert hærra en það sem verið er að taka af, því á bak við það er ekki nokkur skapaður hlutur sem hægt er að byggja á þegar menn hafa ekki sýnt neina útreikninga á veiðigjaldinu.

Ég er ekki ánægður með það sem hv. þm. sagði að við fengjum tölurnar ef þær verða tilbúnar áður en 3. umr. fer fram. Ég tel fráleitt að 3. umr. fari fram í sölum Alþingis á meðan eitthvað er eftir af þinghaldi. Ég sé ekki að það þurfi að ljúka 3. umr. fyrr en kemur að lokum þings og menn geti þá tekið sér þann tíma sem þarf, a.m.k. situr hv. þm. Gunnar Birgisson í Alþingi til þess að bíða með þetta mál og ágætisviðmiðun að ljúka því ekki fyrr en hann stendur upp. Það er tillaga mín að þannig verði það. Það ætti a.m.k. ekki að fara fram hjá neinum hvenær tímabilinu lýkur.