Innköllun varamanna

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:31:44 (7251)

2004-04-29 22:31:44# 130. lþ. 106.94 fundur 514#B innköllun varamanna# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:31]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að mikill skjálfti er hlaupinn í ríkisstjórnarmeirihlutann og greinilega eru uppi efasemdir í þeim herbúðum um að ríkisstjórnin styðjist raunverulega við meiri hluta á Alþingi í ýmsum málum sem liggja nú fyrir þinginu, þar á meðal stjfrv. um útlendinga sem á að greiða atkvæði um á eftir. Hvað gerist þá?

Nú undir kvöldið er Alþingi tilkynnt að kallaðir verði inn tveir nýir þingmenn, tveir varaþingmenn fyrir alþingismenn sem hafa verið erlendis en hefðu ella komið til þings eftir helgina. Ég veit ekki betur, herra forseti, en að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og hæstv. ráðherra Siv Friðleifsdóttir hafi verið fjarverandi frá þinginu með fjarvistarleyfi en það er á grundvelli þess tíma sem þegar er liðinn sem nýir þingmenn eru kallaðir inn og m.a. látnir undirrita eiðstaf eftir kvöldmat. (GHall: Bjóðum við þá ekki velkomna?) Við bjóðum að sjálfsögðu nýja þingmenn velkomna. Þetta mál snýst ekki um persónur þeirra. Þetta snýst um störf og virðingu Alþingis. Hér er um að ræða misbeitingu á pólitísku valdi og því er mótmælt.