Innköllun varamanna

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:33:18 (7252)

2004-04-29 22:33:18# 130. lþ. 106.94 fundur 514#B innköllun varamanna# (um fundarstjórn), KLM
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:33]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það sem við höfum verið að upplifa í kvöld, frá og með að matarhléi lauk, sýnir vandræðagang stjórnarinnar sem kemur fram í því að á elleftu stundu eru þingmenn sem voru væntanlegir heim á morgun settir út af sakramentinu ef svo má að orði komast og varamenn kallaðir inn til þess að bjarga ríkisstjórn vegna þess að stjfrv. ríkisstjórnar hefði annars ekki haft meiri hluta á þingi í kvöld. Það liggur fyrir að tveir stjórnarþingmenn styðja ekki það frv. sem hér á að fara að greiða atkvæði um, þ.e. frv. um útlendinga. Í þessum vandræðagangi við þetta vonda mál stjórnarinnar er gripið til þessa undarlega úrræðis að núna um kvöldmatarleytið eru nýir þingmenn kallaðir inn --- sem að sjálfsögðu eru boðnir velkomnir --- í stað þeirra sem annars áttu að koma heim á morgun. Þetta er ótrúlegt en þetta er það sem við sjáum. Við finnum pirring sem er milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, milli stjórnarflokkanna, í ýmsum málum og þetta er rétt byrjunin á því sem á eftir að gerast á þeim dögum sem eftir lifa af þessu þingi. Þetta er byrjunin á þeim vandræðagangi hæstv. ríkisstjórnar sem hér kemur fram með því neyðarúrræði að kalla varamenn inn seint að kvöldi til.

Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir sem er á fundi Evrópuráðsins í Strassborg átti að koma heim á morgun. Varamaður er kallaður inn. Hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir er á fundi úti og er væntanleg heim til þingstarfa en verður áfram við störf erlendis og varamaður kallaður inn.

Herra forseti. Vandræðagangurinn sem hér kemur fram er algjör. Hér er verið að bjarga á elleftu stundu og ég held, eins og ég segi, að þetta sé rétt byrjunin á því sem verður það sem eftir lifir af þingstörfum.