Innköllun varamanna

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:35:47 (7253)

2004-04-29 22:35:47# 130. lþ. 106.94 fundur 514#B innköllun varamanna# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég veit að ekki þarf að rifja það upp fyrir hæstv. forseta eða þingheimi að þingmenn eru þannig settir, líklega einir stétta í landinu, að um störf þeirra gilda sérstök lög og þeim ber að sinna starfsskyldum sínum, enda liggja landslög við, nema þeir hafi fullgildar ástæður til að vera fjarverandi. Ég vil því spyrja af þessu tilefni sem kemur óvænt upp á: Hafa þær, hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, sem nú skyndilega hafa ákveðið að kalla inn fyrir sig varamenn ákveðið að taka sér launalaust leyfi frá störfum þingsins næstu 14 daga? Hafa skyndilega komið upp þær aðstæður í þeirra högum að þeim sé meinað að gegna þingskyldum sínum? Hafa orðið þær skyndilegu breytingar á högum þessa ágæta þingmanns og þessa hæstv. ráðherra nú undir kvöldið að þær komi því ekki við að sinna þingskyldum hér næstu 14 daga og hafi því beðið um launalaust leyfi?

Ég spyr í fullri alvöru, herra forseti, og ég óska eftir svörum því að ef svo er er hér auðvitað um nýmæli að ræða nema skyndibreyting hafi orðið á þeim hefðbundnu og fastmótuðu reglum sem gilda um rétt til inntöku varamanna. Það stendur ekki á því, herra forseti, þegar stjórnarandstaðan á í hlut að fylgja reglunum út í æsar. Menn skulu vera hið minnsta fimm fullgilda þingdaga í burtu í lögmætum, opinberum erindagjörðum til að eiga rétt á því að taka inn varamenn. Undan þessum reglum hafa menn oft kvartað og fundist þær fullharkalegar, líka í ljósi þess að hæstv. ráðherrar hafa nánast sjálfdæmi um það að skilgreina embættisskyldur sínar erlendis sem innan lands þannig að þeir geti tekið inn varamenn.

Nú ber nýrra við ef svo er líka komið með hv. þingmenn stjórnarliðsins. Hér verður eitt yfir alla að ganga, herra forseti. Það eru engir jónar og séra jónar í þessum efnum, hvorki samkvæmt landslögum né hefðum í þinginu. Mér finnst, herra forseti, að við eigum heimtingu á að fá skýringar á því hvað hér er á ferðinni. Hvað hefur breyst? Hafa umræddar, hv. þm. og hæstv. ráðherra, ákveðið að taka sér leyfi frá störfum, launalaust í tvær vikur, vegna persónulegra anna eða hvað annað hefur hér borið til?