Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:46:03 (7260)

2004-04-29 22:46:03# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að breytingartillögur sem fram koma á þskj. 1203 hafa ekki fengið umfjöllun í allshn. enda er nokkur tímapressa á okkur í þeim efnum. En ég vil gera þingheimi sérstaka grein fyrir þeim tillögum sem eiga rætur að rekja til frv. sem 1. flm. að er hv. þm. Atli Gíslason sem sat sem varamaður fyrir mig í nokkrar vikur fyrr í vetur. Þetta er breytingartillaga sem varðar annars vegar 11. gr. laganna og hins vegar 15. gr. laganna. Í 11. gr. er fjallað um skilyrði dvalarleyfis útlendinga og lýtur breytingartillagan að unglingum sem náð hafa 18 ára aldri áður en þeir hafa öðlast búsetuleyfi, þar sem búsetuskilyrðum er ekki náð. Þessir unglingar þurfa samkvæmt núgildandi lögum að sýna fram á sjálfstæða framfærslu til að fá tímabundið dvalarleyfi sitt framlengt en slíkt gerir það að verkum að viðkomandi unglingur hefur litla möguleika t.d. á að stunda nám. Breytingartillagan gerir ráð fyrir því að veita megi dvalarleyfi gegn framvísun yfirlýsingar foreldra eða framfæranda um að framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt.

Í annan stað er um breytingartillögu að ræða sem heimilar útgáfu dvalarleyfis til útlendings jafnvel þótt viðkomandi hafi þurft að leita til hins opinbera um framfærslu vegna sérstakra aðstæðna.

Í þriðja og síðasta lagi, virðulegi forseti, er breytingartillögunni ætlað að taka á vandamálum sem komið hafa upp í tengslum við það þegar útlendingar og þá fyrst og fremst konur hafa komið til landsins og fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sambúðar eða samvistar við íslenska ríkisborgara, en allt of mörg dæmi eru um að þessar konur hafi sætt ofbeldi í hjónabandi og komi til skilnaðar eru þeim allar bjargir bannaðar. Dæmi eru jafnvel um að makar þeirra hafi skákað í því skjólinu í sambúðinni með því að gera þessum konum ljóst að sambúðarslit leiði sjálfkrafa af sér brottvísun úr landinu. Þessar aðstæður eru óviðunandi og ómannúðlegar og er breytingartillögunni ætlað að leiðrétta þennan órétt.

Að öðru leyti munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu um útlendingalögin á þann hátt að við munum styðja breytingartillögur minni hluta allshn. Að öðru leyti stöndum við við sannfæringu okkar og málflutning sem hefur komið fram í þessu máli.