Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:36:55 (7270)

2004-04-30 10:36:55# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ekkert lát er á hörmulegum fréttum frá Írak og nú bætast við öll þau ósköp sem á undan eru gengin fréttir af því að fangar séu þar pyntaðir, þverbrotin séu ákvæði Genfarsáttmála um meðferð stríðsfanga og jafnvel sagt að Bandaríkjamenn hafi ráðið verktaka til að sjá um fanga og yfirheyra fanga. Það eru með öðrum orðum ráðnir verktakar til að berja á föngum. Þetta bætist við þau grófu mannréttindabrot sem Bandaríkjamenn ástunda frammi fyrir alþjóðasamfélaginu hvað varðar meðferð fanga í Guantanamo á Kúbu þar sem átt hefur sér stað einstakt réttarhneyksli í sögunni. Menn eru þar geymdir árum saman án dóms og laga og njóta hvorki verndar sem venjulegir borgaralegir fangar né stríðsfangar heldur eru samkvæmt nýrri bandarískri skilgreiningu einhvers konar vígamenn utan dóms og laga. Menn eru verr settir en skepnur vegna þess að dýraverndunarlög ná ekki einu sinni yfir fangana í Guantanamo á Kúbu.

Utanríkismálanefnd Alþingis hlýtur að koma saman við þessar aðstæður og taka fyrir þessi mál. Minni ég þá einnig á þau mál sem þar liggja fyrir varðandi t.d. stöðuna í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna.

Það er enginn vafi á því í mínum huga, herra forseti, að uppáskrift hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á Íraksstríðinu eru einhver hörmulegustu afglöp íslenskra stjórnmála um langt skeið, örugglega á þessari öld og má mikið vera ef þau endast ekki út öldina sem slík, að þetta eigi eftir að verða á spjöldum sögunnar einhver hörmulegustu pólitísku afglöp og mistök sem lengi hafa verið framin.

Það er betra en ekki þó seint sé að við Íslendingar afsölum okkur frekari ábyrgð á þessum ósköpum og þessum hörmungum og þeim lögbrotum og mannréttindabrotum sem þarna fara fram. Úr því að ríkisstjórn er heillum horfin í þessum efnum þá varðar það sóma Alþingis að þvo okkur af þessari óhæfu eftir því sem kostur er.