Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:39:13 (7271)

2004-04-30 10:39:13# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Fréttir berast af alvarlegu og versnandi ástandi í Írak. Aðfarir bandaríska hernámsliðsins og fylgifiska þess vekur ugg. Stöðugt berast fréttir af fjöldamorðum. Í morgun berast nú fréttir af pyntingum.

Fyrir nokkru síðan voru fjórir bandarískir hermenn drepnir á hrottafenginn hátt. Hernámsliðið greip til hefndaraðgerða. 600--700 manns, þar á meðal óbreyttir borgarar, börn og gamalmenni lágu í valnum. Þetta minnir á hefndaraðgerðir nasista í heimsstyrjöldinni síðari.

Íslendingar bera hér ábyrgð. Er ekki ástæða til þess að fulltrúar hinnar staðföstu stjórnar sem hefur staðið í einu og öllu við bakið á hernámsliðinu láti nú frá sér heyra, biðji íröksku þjóðina og einnig þá íslensku afsökunar á framferði sínu?