Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:45:25 (7274)

2004-04-30 10:45:25# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Íslendingar eru í eðli sínu friðsöm og sanngjörn þjóð. Hinni íslensku þjóð er misboðið með því að ráðamenn hennar hafa með þessum hætti bundið stuðning hennar við hina skelfilegu innrás í Írak. Þess vegna er það sameiginleg krafa allrar stjórnarandstöðunnar að ráðherrar ríkisstjórnarinnar biðji í senn íslensku þjóðina og íröksku þjóðina fyrirgefningar á þeirri misgerð sem þessi skilyrðislausi stuðningur var. Þjóðin öll er upp til hópa á móti þessu. Meira að segja ein af burðarstoðum íslenska samfélagsins, þjóðkirkjan, sendi í gær frá sér af prestastefnu í Grafarvogi eindregna ályktun þar sem þátttaka okkar og stuðningur við Íraksstríðið er hörmuð. Þessi mál hljóta því að koma til frekari umræðu á hinu háa Alþingi. Það verður að gera það uppskátt með hvaða hætti íslenska ríkisstjórnin batt hina íslensku þjóð til stuðnings við innrásina í Írak. Hvaða tildrög voru að því og með hvaða hætti var sú ákvörðun tekin?

Það má deila um það hvort þar var um lögmæta ákvörðun að ræða. Ég spyr t.d.: Á hvaða ríkisstjórnarfundi var sú ákvörðun tekin? Eða var það virkilega þannig að ákvörðunin um að íslenska þjóðin var hnýtt í tagl þeirrar bandarísku varðandi innrásina í Írak var tekin utan ríkisstjórnarfundar, var aldrei borin upp á fundi ríkisstjórnar heldur einungis ákveðin í tveggja manna tali? Hvað heitir lýðveldi þar sem ákvarðanir af þessu tagi eru teknar á þann hátt? Við vitum það öll. Þetta er til skammar fyrir íslensku ríkisstjórnina og ráðherrar hennar eiga að gera hreint fyrir sínum dyrum og þeir eiga að biðja okkur afsökunar og þeir eiga að biðja Íraka fyrirgefningar.