Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:47:34 (7275)

2004-04-30 10:47:34# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Ein mikilvægasta ákvörðun í utanríkismálum sem Íslendingar hafa tekið er vafalaust innganga í varnarbandalag vestrænna ríkja árið 1948. Þá settum við Íslendingar eitt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðildinni. Það var að Ísland mundi aldrei taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum, aldrei fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Að þessu skilyrði gengu aðrar þjóðir í bandalaginu umyrðalaust.

Ríkisstjórnin þverbraut þetta skilyrði sjálf með því að skipa Íslandi í bandalag hinna staðföstu þjóða sem stóðu að árásinni á Írak. Forsrh. og utanrrh. tóku þessa afdrifaríku ákvörðun án minnsta samráðs við löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Í 24. gr. þingskapa Alþingis Íslendinga segir svo, með leyfi forseta:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.``

Hér á landi finnst varla nokkur maður sem telur aðild okkar að hernaði í Írak til minni háttar utanríkismála og sú skoðun endurspeglaðist á prestastefnu í gær þar sem aðild Íslendinga að þessum hernaði í Írak var harðlega fordæmdur.