Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:48:55 (7276)

2004-04-30 10:48:55# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér hefur verið fært í tal er auðvitað ekki hægt að fjalla um efnislega undir þessum dagskrárlið enda ekkert tilefni eða tóm til þess. Það verðum við að gera við aðrar aðstæður og með öðrum hætti. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þessi mál í sölum Alþingis sem eðlilegt er. Við höfum verið að fjalla um þessi mál og við höfum verið að skiptast á skoðunum um þau.

Ég vil minna á að þann 6. apríl sl., fyrir fáeinum dögum, fór fram utanríkismálaumræða og hæstv. utanrrh. gerði þessi mál að meginefni ræðu sinnar og varði sjónarmið Íslendinga. (Gripið fram í: Nei.) (ÖJ: Nei. Hernámsliðsins.) Virðulegi forseti. Þetta voru sjónarmið ríkisstjórnar Íslendinga. (ÖJ: Ekki Íslendinga.) Það er auðvitað þannig, virðulegi forseti. Sama hvað háttvirtur frammíkallandi segir þá var það þannig að við höfðum fullkomið tækifæri til að ræða þessi málefni þá (Gripið fram í.) efnislega og við gerðum það heilan dag. Hv. þm. þarf ekki stöðugt að reyna að koma í veg fyrir að ég hafi orðið þegar hæstv. forseti er búinn að gefa mér það. Hv. þm. er alveg maður til þess að biðja um orðið og tala úr ræðustólnum. Hv. þm. hafði líka tækifæri til þess og notaði það, ef ég man rétt, í umræðunni sem fram fór hér um utanríkismál 6. apríl. Þá fór fram efnisleg umræða um þetta mál. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað láta eins og þessi mál hafi ekki verið borin upp í þinginu og menn hafi ekki haft tækifæri til að fjalla um þessi mál efnislega. Við höfum þó þrátt fyrir allt haft tækifæri til þess margoft, bæði þann 6. apríl í umræðu um utanríkismál og enn fremur í málum sem hafa verið borin upp á þinginu og málum sem hafa verið tekin upp utan dagskrár. Það er því ekki eins og þessi mál hafi aldrei verið rædd og það er ekki eins og ríkisstjórnin, ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki skýrt sjónarmið sín.

Þessi mál eru einfaldlega þess eðlis að þar vorum við að taka erfiða ákvörun og sem betur fer var það niðurstaða ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að vera í andstæðingaliði harðstjórnar Saddams Husseins. Ég kalla eftir því að menn segi (Forseti hringir.) hvernig þeir ætluðu að koma þeim harðstjóra frá. (ÖJ: Ertu að verja pyntingar?) Ég er að verja ... (ÖJ: Þú ert að verja pyntingar.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Hv. þm. er hins vegar stöðugt að koma sér undan því að svara einfaldri spurningu. (Forseti hringir.) Hvernig vildi hann koma harðstjóranum Saddam Hussein frá? Vildi hann kannski hafa hann við völd áfram? (ÖJ: Útúrsnúningur.)

(Forseti (BÁ): Hv. þingmenn eru beðnir um að fara ekki í tveggja manna tal hér (ÖS: Og halda sig við tíma.) og halda sig við tímamörk.)