Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:30:23 (7282)

2004-04-30 11:30:23# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:30]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var aldeilis makalaus ræða sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hélt hér um frv. til laga um breyting á útlendingalögum. Ræðan fjallaði minnst um frv., fjallaði miklu frekar um annað frv. og var stjórnskipunarlegt manifesto þingmannsins um það hvernig ríkisstjórnir ættu að haga sínum málum við stjórn. Hún kallaði framlagningu þessa frv. og annarra valdasýki, frekju og að skortur hefði verið á samráði hvað þetta frv. varðar.

Nú veit ég ekki hvort hv. þm. hefur veitt því athygli en á fund allshn. komu hvorki fleiri né færri en 22 gestir og umsagnir bárust frá 27 aðilum. Yfir allar þessar umsagnir var farið, við alla þessa gesti var talað og allir gátu þeir komið sjónarmiðum sínum að gagnvart nefndinni. Það sem meira er, tekið var tillit til margra þessara athugasemda og atriða. Þetta kalla menn valdasýki og skort á samráði. Ég leyfi mér að efast um að svo sé.

Í upphafi ræðu hv. þm. kom fram að forsenda frv. væri stækkun Evrópusambandsins. Þess vegna vil ég benda hv. þm. á að það er kannski rétt að taka fram að þau ákvæði sem hv. þm. setur hvað mest út á, án þess að fara efnislega í gagnrýnina, munu ekki gilda um aðila EES-samningsins, heldur borgara utan EES-samningsins. Frv. varðar ekkert hina borgarana eins og þingmaðurinn lét þó að liggja.