Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:36:40 (7285)

2004-04-30 11:36:40# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:36]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þó ekki væri, þó ekki sé krukkað í fólk ef það er í hjúskap þegar það kemur. Þó ekki væri. Ef fólk er orðið 24 ára þegar makinn kemur, bæði eru 24 ára, fær einstaklingurinn sjálfkrafa þau réttindi sem Íslendingar hafa. En ef einstaklingurinn er ekki orðinn 24 ára hefur hann ekki þau réttindi, og þá eru ákvæðin um hjúskap ekki þau sömu. Þá eru bara mismunandi hjúskaparákvæði. Þingmaðurinn skilur ekki einu sinni sitt eigið frv. Og hvað er enn þá þarna inni? 24 ára reglan, 66 ára reglan, DNA-ákvæðið og það ómar frá þessu frv. útlendingaandúð.

Þingmaðurinn gerir það að umtalsefni og segir að ég geri lítið úr því að 22 gestir hafi komið á fund allshn. Það eru bara hefðbundin, sjálfsögð vinnubrögð á Alþingi Íslendinga og hafa verið svo lengi sem ég hef verið hér að verða við öllum óskum um að gestir komi og greini frá athugasemdum sínum við frumvörp. 22 eða 52, sjálfsagður hlutur. (Gripið fram í: Hefðbundin meðferð, er það skortur á samráði?) Það er ekki samráðið sem við erum að tala um. Ef reynt er að leita samráðs er það bæði þverpólitískt og við samtök sem í hlut eiga þannig að sátt verði um löggjöfina. Það er ekki samráð að setja upp frv., jafnvel ómanneskjulegt frv., senda það inn í þingið, setja það í allshn., fá 22 á fundinn og gera síðan ekkert með það. Þá skilur maður ekki orðið samráð. Allt sem ég hef sagt stendur, herra forseti.