Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:53:44 (7289)

2004-04-30 11:53:44# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er komið að 3. umr. um þetta umdeilda frv. um breyting á lögum um útlendinga. Meiri hluti gærdagsins fór í að kryfja þessi mál til mergjar en það er engu að síður af nógu að taka í umræðunni. Við getum haldið áfram að fjalla um ákveðin atriði frv. og það sem hefur valdið þeim deilum sem staðið hafa um nokkurt skeið frá því að frv. kom fram.

Ég get tekið undir orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem fjallaði um EES-ákvæðin. Það er rétt að ítreka að allir stjórnarandstöðuflokkarnir stóðu að því sameiginlega að bjóða ríkisstjórninni upp á að setja EES-ákvæðin í útlendingalögin. Það var sjálfsagt mál en við gagnrýndum ríkisstjórnina frá fyrsta degi fyrir að reyna að smygla inn í frv. afar umdeildum ákvæðum, jafnvel ákvæðum sem búið var að taka út úr útlendingafrv. fyrir tveimur árum síðan. Þá var mikið tekist á um ákveðin atriði sem nú eru komin inn sem afturgöngur og eru sett í gegnum þingið með því ofbeldi sem sýnt var af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í gærkvöldi. Það er ekkert skrýtið þótt hv. stjórnarandstaða í þessum sölum sé orðin langþreytt á þeirri valdstjórn sem hér ríkir nú því aðferðirnar sem notaðar eru eru aldeilis forkastanlegar.

Þau atriði sem mig langar að gera að umtalsefni í ræðu minni, virðulegi forseti, varða framtíðina því spá mín er sú að þess verði ekki langt að bíða að annaðhvort íslensk stjórnvöld eða dönsk, sem eru sömuleiðis undir þá sök sett að vilja takmarka möguleika ungra einstaklinga sem eru í hjúskap að komast inn í landið, fái á sig kærur sem gætu allt eins endað fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Það kann að vera að þess verði ekki langt að bíða að einhverjir einstaklingar láti á það reyna fyrir þeim dómstóli hvort íslenskum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu að leiða þá reglu sem hér um ræðir í lög. Mín skoðun á því máli er sú að reglan gangi gegn ákvæðum mannréttindasáttmálans. Ég vil meina að hún brjóti jafnræði á borgurunum, þeim sé mismunað og mannréttindasáttmálinn bannar alla mismunun. Máli mínu til stuðnings vil ég vitna í mannréttindasáttmála Evrópu en samkvæmt 1. gr. hans er okkur skylt að virða mannréttindi. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Samningsaðilar skulu tryggja hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla þessa samnings.``

Ef við skoðum kafla samningsins sem fjallar um hjúskap, þ.e. 12., 13. og 14. gr., segir í 12. gr., með leyfi forseta:

,,Karlar og konur á hjúskaparaldri hafa rétt á að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu í samræmi við landslög um þessi réttindi.``

Hver eru landslög um hjúskaparréttindi á Íslandi? Réttindin eru þau að ungt fólk getur gengið í hjónaband þegar það hefur náð 18 ára aldri, ekki 24 ára aldri. Hv. þm. stjórnarliða hafa verið að reyna að gera lítið úr þeirri reglu sem verið er að innleiða og segja að ef íslenskur ríkisborgari eða Íslendingur komi með erlendan maka sinn inn í landið og sæki um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar verði auðvitað horft til þess hjúskapar og ekki sé verið að setja þessa reglu yfir alla, en samkvæmt orðanna hljóðan gæti maður samt sem áður haldið að hún ætti við.

Við skulum athuga það, virðulegi forseti, að opinber yfirvöld fara ekki alltaf þannig með valdheimildir að sómi sé að. Það kann að vera að stjórnvöld og þeim sem hafa valdheimildirnar verði uppálagt að fara eftir ýtrustu skilyrðum heimildarinnar og því tel ég vera hættu á ferðum í þeim efnum. Ég ætla að vitna áfram til mannréttindasáttmála Evrópu, með leyfi forseta, sem í 13. gr. fjallar um réttinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, en það er annað atriði sem er mjög mikilvægt í þessum efnum, þ.e. hvaða möguleika fólk sem lendir í þessum höftum hefur til að leita réttar síns:

,,Sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert, sem lýst er í samningi þessum, skal eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi, og gildir einu þótt brotið hafi framið opinberir embættismenn.``

[12:00]

Afar mikilvægt er að horft sé til þeirrar reglu í sambandi við lagasetninguna því að við erum að auka svo valdheimildir stjórnvalda að ekki er ólíklegt að fólk fari að leita réttar síns í auknum mæli sem það samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu hefur fullan rétt á.

Við höfum haldið því fram, stjórnarandstöðuþingmenn, í umræðunni að það sé verið að brjóta mannréttindi, að verið sé að mismuna fólki. 14. gr. í mannréttindasáttmála Evrópu bannar alla mismunun og ekki bara hún því að stjórnarskrá okkar bannar mismunun og það nægir að vitna í 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.``

Þetta er úr stjórnarskránni okkar, hinni íslensku stjórnarskrá sem á að tryggja það að allir menn séu jafnir fyrir lögunum. Sambærilega grein er að finna í mannréttindasáttmála Evrópu. Þar segir í 14. gr., með leyfi forseta:

,,Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.``

Þessi grein er algerlega óyggjandi varðandi bann við mismunun þannig að eins og ég sagði áðan, herra forseti, þó að ég sé kannski ekki með neina sérstaka spádómsgáfu eða sé að stæra mig af slíku, þá er það svo að ég spái því að út frá þeim reglum sem ég nú hef lesið úr mannréttindasáttmála Evrópu verði þess stutt að bíða að íslensk stjórnvöld fái á sig kærur þar sem þau gætu þurft að standa fyrir máli sínu. Hver ætlar að hjálpa þeim þá? Hver ætlar að standa við bakið á þeim þá? Þá verður ekki hægt að kalla inn einhverja varamenn sem koma og bjarga skinni þeirra eins og gert var í gær. Við eigum eftir að spyrja að leikslokum í þessu máli, virðulegi forseti. Það er spá mín og trú.

Það er ekki bara 24 ára reglan sem hefur verið umdeild í málinu, 66 ára reglan hefur verið það líka en þar er verið að þrengja heimildir fólks til fjölskyldusameiningar. Það er verið að þrengja heimildir útlendinga sem búa löglega í landinu til þess að fá foreldra sína eða eldri ættingja til að koma og segjum til að hjálpa þeim, létta undir með þeim að lifa í landinu. Við skulum átta okkur á því að það er eðlilegt í samfélögum í farlægum löndum að stórfjölskyldan sé saman, þykir miklu eðlilegra en hér og er miklu algengara en hér tíðkast. Það er því eðlilegt að fólk leiti eftir samruna fjölskyldnanna og afar og ömmur eru oftast nær jafnvel yngri en 66 ára, sérstaklega þegar um ung barnabörn er að ræða. Við getum því gert ráð fyrir að afa og ömmu sé full þörf á heimilum þar sem svo er ástatt um frá því að viðkomandi eru kannski innan við fimmtugt. Því spyr maður: Hvers vegna slík þrenging? Er það vegna þess að íslensk stjórnvöld halda að þetta fólk fari að vaða inn á vinnumarkaðinn og taka störf frá Íslendingum? Nei, varla getur það verið, við flytjum inn þúsundir útlendinga til að vinna störf hér á landi. Og þó svo að viðkomandi einstaklingar gætu komið sem viðbót inn á vinnumarkaðinn vita allir Íslendingar hvernig það er að sækja um starf þegar maður er kominn um miðjan aldur þannig að það er engin ógn af þessu fólki, ekki nokkur. Hér er um mannúðleg sjónarmið að ræða, að heimila eigi fjölskyldusameiningu, heimila eldri ættingjum, öfum og ömmum að koma til landsins og hjálpa fjölskyldum sínum áfram í lífsbaráttunni sem er ekki svo auðveld eða einföld á Íslandi og kannski ekki hvað síst erfið fyrir útlendinga sem eru að aðlagast nýrri menningu og nýjum þjóðfélagsháttum. Það er sannarlega ekki leikur einn eins og við höfum mörg dæmi um.

Stjórnarmeirihlutinn hefur krafist þess að þetta fari allt í gegn og slíkar þrengingar séu gerðar á lögunum og þau mál runnu öll eftirminnilega í gegnum atkvæðagreiðslu við 2. umr. í gærkvöldi og á sennilega ekki eftir að líða mönnum fljótt úr minni.

Eina grein vil ég enn gera að umtalsefni, það er 3. gr. frv. sem ég ætla að einbeita mér að í máli mínu núna en það varðar spurninguna um lífsýnatökuna. Sannleikurinn er sá, virðulegi forseti, hvað varðar lífsýnatökuna sem sett er heimild um í frv. að enda þótt orðalagið hafi verið eitthvað mildað eða reynt að breyta hugsuninni í brtt. meiri hlutans í gær hljómar hún engu að síður þannig að það skiptir öllu máli hvernig farið er með valdheimildina. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr frv. eins og það er eftir 2. umr., c-lið 7. gr., 2. mgr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Við ákvörðun um veitingu dvalarleyfis hefur Útlendingastofnun heimild til að fara fram á að umsækjandi um dvalarleyfi skv. 1. mgr. 13. gr. eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis í því skyni, til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða skv. 2. mgr. 13. gr., ef fyrirliggjandi gögn í því efni eru ekki talin veita fullnægjandi sönnun um skyldleikann.``

Hverjir eiga að meta það hvort fyrirliggjandi gögn eru talin fullnægjandi eða ekki? Jú, það eru þeir sem standa í hliðinu, það er Útlendingastofnun sem á að meta það hvort viðkomandi gögn séu nægileg eða ekki. Segjum sem svo að viðkomandi einstaklingur sem er að sækja um dvalarleyfi sætti sig við það að þurfa að skila inn lífsýni en hvar stöndum við þá? Hvað mundi lífsýnið sanna? Í umræðum um málið í allshn., frú forseti, kom fram varðandi þetta atriði að lífsýni séu í raun og veru algerlega ófullkomin til þess að sanna eða afsanna skyldleika. Það eru ótal dæmi um að börn séu rangfeðruð. Dæmi eru um að konur verði ófrískar eftir nauðgun og segi aldrei neinum frá því, hvorki manni sínum né barni. Svo eru jafnvel ættleiðingar sem börnum hefur ekki verið sagt frá. Og hvað á að gera við fósturbörn og fóstursystkini þannig að menn verða að átta sig á að sú heimild sem sett er í 7. gr. sannar ekki neitt, hún gerir ekki það gagn sem viðkomandi yfirvöld, íslensk stjórnvöld telja að hún muni gera þannig að hér er verið að setja inn allsendis óþarfa reglu, reglu sem á ekki eftir að nýtast til nokkurs skapaðs hlutar en er að brjóta að mínu mati mannréttindi á fólki. Hvaða mannréttindi? Friðhelgi einkalífsins.

Samkvæmt mannréttindasáttmálum og slíkum reglum mega jú réttindi sæta ákveðnum takmörkunum en við skulum fletta upp á friðhelgi einkalífsins, það er rétt að ég vitni í umsögn sem mér fannst afar athyglisverð sem allshn. fékk frá Fjölmenningarráði sem lýtur að þessu efni, nákvæmlega þeirri grein, 7. gr., en í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

,,Í mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest og gerst aðili að, svo og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er friðhelgi einkalífsins meðal helstu mannréttinda. Það er viðurkennt jafnt á alþjóðavettvangi og í íslenskum lögum að þessa friðhelgi megi rjúfa ef rökstuddur grunur er á að einstaklingur hafi framið refsiverðan verknað. Ströng skilyrði eru þá lögð á stjórnvöld sem tryggja eiga einstaklinginn og að meðalhófs sé gætt af hálfu stjórnvalda. Engin dæmi eru í íslenskum lögum þar sem stjórnvaldi er heimilt að krefja lífsýnis við rannsókn mála, að undanskilinni heimild lögreglunnar til blóðsýnis ef grunur er um ölvunarakstur. Ekki er aðeins um að ræða heimild til að þvinga fram samþykki fyrir slíkri sýnatöku, heldur er það án dómsúrskurðar og Útlendingastofnun, sem burt séð frá staðreyndum er í eðli sínu stofnun sem útlendingar/innflytjendur bera ekki mikið traust til, fær slíka heimild án dómsúrskurðar.``

Virðulegi forseti. Mér finnst engum blöðum um það að fletta að hér er verið að brjóta gegn friðhelgi einkalífs með þessari reglu, með reglu sem er allt eins vís til að skila engu þegar til ætti að taka.

Fjölmenningarráð tekur líka fram í umsögn sinni það sem ég gerði að umtalsefni í máli mínu rétt áðan að íslensk lög, eins og lög ýmissa annarra ríkja, feli það í sér að fæðist barn í hjónabandi þá er eiginmaður móðurinnar lagalegur faðir barnsins. Það er hægt að sanna eða afsanna skyldleika með lífsýni því það kann að vera að viðkomandi einstaklingur sé ekki blóðskyldur viðkomandi ættingja sínum en sannarlega ættingi hans þó, þannig að sú vitneskja sem skapast getur við það að erfðaefni er greint frá einstaklingi getur jafnvel haft mjög alvarlegar afleiðingar og Fjölmenningarráð óttast að í tilfellum þar sem börn vita ekki hverjir eru raunverulegir blóðforeldrar þeirra geti það valdið miklum skaða á fjölskyldusamböndum. Ég tel því að hér sé mikilvægt að fara að með mikilli gát og satt að segja eru íslensk stjórnvöld búin að haga sér eins og heill her af fílum í postulínsverslun í þessu máli. Það er skammarlegt að við skulum ganga fram með þeim hætti að við skulum vera að innleiða reglur sem, eins og ég hef rakið, að öllum líkindum stríða gegn stjórnarskrá okkar, mannréttindasáttmálum, sáttmálanum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og fleiri samninga mætti eflaust tiltaka.

Mergurinn málsins er þó sá, virðulegi forseti, að Ísland er ekki eyland. Hingað sækir fjöldinn allur af útlendingum sem hefur hingað til auðgað menningu okkar til muna og mig langar til að ljúka ræðu minni með því að vitna til orða Kristínar Njálsdóttur sem starfaði hjá Upplýsinga- og menningarmiðstöð nýbúa og skrifaði í rit sem Barnaheill gaf út 2001 um börn af erlendum uppruna en þar segir Kristín, með leyfi forseta:

,,Að aðlagast nýrri menningu og nýjum þjóðfélagsháttum er ekki vandalaust heldur fremur sársaukafullt ef skilningur, virðing og umburðarlyndi meiri hlutans er ekki fyrir hendi. Því kynntust íslensku vesturfararnir og er okkur Íslendingum hollt að minnast þess þegar við tökum á móti nýjum íbúum með framandi menningu til landsins.``

Virðulegur forseti. Það er sársaukafullt fyrir útlendinga sem ætla sér að koma til okkar og deila með okkur kjörum og búa hjá okkur ef skortir á skilning, virðingu og umburðarlyndi meiri hlutans en það er nákvæmlega það sem gerst hefur í þessu máli. Hér skortir tilfinnanlega skilning, virðingu og umburðarlyndi meiri hluta Alþingis Íslendinga.