Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 12:38:30 (7294)

2004-04-30 12:38:30# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[12:38]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Á þeim forsendum sem ég hef þegar greint frá. Það að koma hingað og sameinast fjölskyldu sinni um lengri eða skemmri tíma hangir þá á því eins og fyrir aðra útlendinga --- segjum sem svo að hingað komi amma, 55 ára, og vilji setjast að, hún þarf að fá starfsleyfi, ekki satt? --- að fá leyfi til að dvelja og starfa á Íslandi?

Það er nefnilega mjög erfitt fyrir útlendinga að setjast að á Íslandi, hæstv. forseti. Það er mjög erfitt að setjast að í landi þar sem fólk fær ekki að koma inn nema hafa fyrst í hendi loforð um starf. Þær reglur setja upp fleiri þröskulda en flestir gera sér grein fyrir, og það er þess vegna sem sameining fjölskyldna sem veitir dvalarleyfi á grundvelli skyldleika og fjölskylduaðstæðna er mannúðleg og það er þess virði að halda í það, hæstv. forseti.