Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:01:57 (7298)

2004-04-30 13:01:57# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Draumur og veruleiki er sitt hvað, en í daglegu lífi okkar reynum við að sætta hvort tveggja.

Ég er alveg sammála hv. þm., Pétri H. Blöndal, að í hinni bestu veröld allra veralda væri æskilegt að Íslendingar gætu rétt hjálpandi hönd til þeirra sem eru þurfandi með því að bjóða þeim upp á betri kjör innan landamæra okkar. Við vitum hins vegar að ekki er praktískt að gera það af ýmsum ástæðum.

Við sem erum á móti frv. erum ekki alfarið á móti því að tilteknar takmarkanir séu settar á för manna hingað til lands, síður en svo. Við teljum æskilegt að fá fólk af alþjóðlegum uppruna hingað sökum ýmissa ástæðna, menningarlegra, en ekki síst til þess að skjóta styrkum stoðum undir atvinnulíf okkar. Fólk af erlendu bergi brotið bjargaði efnahagslífi Íslendinga á síðasta kjörtímabili. Án þess og þátttöku þeirra hefði það farið úr skorðum og orðið óðaverðbólga, það er ég viss um að hv. þm. gerir sér grein fyrir.

Við þurfum samt sem áður að reisa skynsamlegar skorður við því að flutningar verði ekki úr hófi hingað til lands, vegna þess að við getum sennilega ekki tekið á móti öllum þeim sem vilja koma hingað og boðið þeim upp á það sem við skilgreinum sem mannsæmandi kjör. Við erum hins vegar að deila um það við stjórnarliðið hvers konar skorður er sanngjarnt og rýmilegt að reisa. Sumar af þeim sem er að finna í frv. hæstv. dómsmrh. eru þess eðlis að hægt er að fallast á þær. Við höfum sjálf lagt fram hugmyndir að slíku í tímans rás með ýmsu móti.

Hér er hins vegar að finna ákveðna hluti sem ekki er hægt að fallast á sem brjóta mannréttindi fólks og jafnvel þótt þeim væri ýtt út úr frv. mundi það ekki leiða til þeirra vandkvæða sem hv. þm. talar um.