Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:04:13 (7299)

2004-04-30 13:04:13# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Þeir starfsmenn íslenska ríkisins sem þurfa að velja og hafna og standa frammi fyrir þeim vandamálum sem við veltum yfir á þá hafa ærinn vanda. Þeir eiga nefnilega að komast að því hvort ung stúlka sé flutt nauðug, hvort verið sé að smygla henni eða hvort hún sé gift o.s.frv. Þetta er vandi þeirra og ekki öfundsverður.

Ég veit að starfsmenn ríkisins eru mannúðlega sinnaðir og ef ekkert bendir til þess að um eitthvað misjafnt sé að ræða er ég viss um að það er nokkuð greið leið inn í landið.

Hins vegar býr misskiptingin til heilmikinn iðnað sem heitir mansal, smygl á fólki sem við erum að berjast gegn. Nauðungarhjónabönd eða hentihjónabönd eru því miður raunveruleg afleiðing af þeim veruleika sem við sjáum. Þess vegna tel ég að þær leiðir sem hér eru farnar og bent hefur verið á --- og ég er ekki yfir mig hrifinn af, alls ekki, sem húmanisti er ég það ekki --- en þegar maður horfist í augu við veruleikann tel ég því miður að þær séu margar hverjar nauðsynlegar.