Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:42:49 (7303)

2004-04-30 13:42:49# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Frú forseti. Ég held að þingheimur hér á eftir muni gera alvarleg mistök með lögfestingu þess frumvarps sem hér liggur fyrir. Ég ætla að vera frekar stuttorður enda var hin eiginlega efnisumræða í gær og þar var gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem minni hlutinn og Samfylkingin vill gera á þessu máli. Eftir þá umræðu voru þær breytingartillögur allar felldar af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Fulltrúar stjórnarflokkanna í allsherjarnefnd hafa fullyrt að þær breytingartillögur sem hafa komið eftir yfirferð nefndarinnar á þessu máli séu engar efnislegar breytingar. Að þeirra mati er frumvarpið nákvæmlega það sama og það var þegar af stað var farið. Að mínu viti sitjum við þess vegna áfram með þann óskapnað sem þessi lög eru og ekki hefur verið tekið tillit til þeirra alvarlegu athugasemda sem hinir fjölmörgu umsagnaraðilar gerðu við málið. Ég hef á mínum örskamma þingferli aldrei séð jafnmargar umsagnir gera jafnmargar alvarlegar athugasemdir, þar sem jafnvel er efast um að frumvarpið muni standast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu og meginregluna um friðhelgi einkalífs.

Við sjáum að trúverðugir aðilar í þjóðfélaginu eins og Persónuvernd og laganefnd Lögmannafélags Íslands eru að mörgu leyti á sama máli og minnihlutaálit hér á þingi. Allar ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna sameinuðust í afar sjaldgæfri samstöðu gegn þessu máli. Þó er rétt að taka fram að Landssamband ungra sjálfstæðismanna, SUS, stóð ekki á bak við þá undirskriftasöfnun. Þeir skáru sig úr hvað þetta varðar.

Mig langar aðeins að minnast á þessi umdeildu atriði sem er rétt að skauta örlítið yfir nú við lok umræðunnar, það er hina svokölluðu 24 ára reglu. Eins og margoft hefur komið fram vill minni hlutinn á þingi fá þessa reglu út. Samkvæmt svari við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur frá dómsmálaráðherra kemur fram að þetta ákvæði mun snerta tugi Íslendinga á hverju einasta ári sem vilja sameinast maka sínum á grundvelli hjúskapar.

[13:45]

Það er að mínu viti gróf mismunun og brot á jafnræði gagnvart þeim einstaklingum. Það furðar mig í ljósi þeirra staðreyndar að sl. vor var kosið óvenjumikið af ungu fólki á þing og sumir aðilar í þjóðfélaginu bundu ákveðnar vonir við að með þessari nýju kynslóð mundi eitthvað breytast. En það er einmitt unga fólkið í ríkisstjórnarflokkunum sem lætur það verða eitt af síðustu verkum sínum á þessu þingi að lögfesta þá mismunun gagnvart fólki á aldursbilinu 18--24 ára. Þetta finnst mér vera sorgleg þróun hjá viðkomandi aðilum.

Við höfum sömuleiðis gert alvarlegar athugasemdir við hina svokölluðu 66 ára reglu, sem að okkar viti kemur í veg fyrir eðlilega fjölskyldusameiningu. Þetta er meginbreyting á núverandi lögum. Við höfum líka gert athugasemd við lífsýnaregluna. Við teljum ekki að Útlendingastofnun eigi að fá heimild til þess að fara fram á lífsýnatöku. Við teljum að það eigi að vera að frumkvæði viðkomandi aðila og val hans, eins og tíðkast t.d. í Noregi. Við teljum einnig margt óljóst varðandi framkvæmdina, kostnaðinn o.s.frv. eins og fram kom við umræðuna í gær. Við teljum ekki rétt að setja sérstaka húsleitarheimild í lög um útlendinga, við getum vel stuðst við þá heimild sem er nú þegar í lögum um útlendinga eða þá heimild sem er í lögum um meðferð opinberra mála. Svo mætti halda langt mál um hina öfugu sönnunarbyrði sem við erum að lögfesta um að viðkomandi aðili þurfi að sanna að hann sé ekki í málamyndahjónabandi gagnvart þeirri stofnun sem heldur þeirri ásökun fram.

Það er mýmargt í frv. sem við erum ósátt við og þetta er spurning um grundvallaratriði og jafnvel hugmyndafræði. Ég er alveg búinn að gefa upp alla von, bæði í þingsalnum og í meðförum allshn. þar sem ég sat, um að geta haft einhver áhrif á málið til batnaðar. Ríkisstjórnarflokkarnir eru sannfærðir um að þetta sé rétta leiðin. Við erum því ósammála, þannig að í þessu máli eins og mörgum öðrum þessa dagana eru mjög skýrar línur í íslenskri pólitík.