Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:36:06 (7314)

2004-04-30 14:36:06# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa sérstakri ánægju með þessa þingsályktunartillögu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Ég tel að það hafi verið full þörf og tímabært að skoða hvort framkvæmd EES-samningsins rúmist innan ramma stjórnarskrárinnar.

Mig langar aðeins að skauta yfir hvernig staðan er núna, bæði hvernig hún er á Norðurlöndum og svo hvernig staða Íslands er núna gagnvart aðgangi að ákvarðanatöku hjá ESB í ljósi EES-samningsins.

Þegar Ísland gerir samninga við erlend ríki eða alþjóðastofnanir þurfum við að skoða 1., 2. og síðan 21. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi ákvæði hafa verið óbreytt síðan lýðveldið var stofnað árið 1944. Á öllum hinum Norðurlöndunum, líka í Noregi sem stendur fyrir utan ESB, hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskrám til að geta mætt þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem geta leitt af þjóðréttarsamningum. Í 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar er að finna heimild til framsals valds til alþjóðastofnana ef þrír fjórðu þingmanna samþykkja slíkt. Í 9. gr. 10. kafla sænsku stjórnarskrárinnar er að finna svipað ákvæði samþykki þrír fjórðu þingmanna. En í 20. gr. dönsku stjórnarskrárinnar er framsal valds til alþjóðastofnunar heimilt með samþykki fimm sjöttu þingmanna. Í Belgíu, Ítalíu og Þýskalandi er hins vegar krafist einfalds meiri hluta þingmanna.

Í nefndaráliti fjögurra lögfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins dagsettu 6. júlí 1992 var komist að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn bryti ekki í bága við íslensku stjórnarskrána. Þetta álit varð hins vegar mjög fljótlega umdeilt og er það enn í dag. EES-samningurinn sem tók gildi 1. janúar 1994 hefur þó breyst talsvert síðan þá vegna hins síkvika eðlis samningsins sem gerir hann ólíkan mörgum öðrum þjóðréttarsamningum. Það má færa gild rök fyrir því að framsal valds til alþjóðlegra stofnana vegna EES-samningsins sé algjörlega á mörkunum að vera leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni.

Rétt er að rifja upp hver sé aðgangur íslenskra stjórnvalda að ákvarðanatöku ESB. Hann er mestur í upphafi en hann er enginn á þeim vettvangi þar sem endanlegar ákvarðanir eru teknar. Til að mynda hafa EFTA-ríkin, þar á meðal Ísland að sjálfsögðu, enga aðkomu að stefnumörkun ESB, enga aðkomu að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, enga aðkomu að störfum ráðherraráðsins, enga aðkomu að vinnunefndum ráðherraráðsins, en þar taka tillögur oft miklum breytingum, enga aðkomu að störfum leiðtogafundar ESB, enga aðkomu að störfum Evrópuþingsins, en geta þó sent þangað inn athugasemdir. Sama má segja um aðkomu að fundum ráðherraráðsins, en EFTA-ríkin geta aðeins sent þangað inn athugasemdir. Eina þátttaka EFTA-ríkjanna, þar á meðal Íslands, í ákvarðanatöku ESB er í raun í gegnum þátttöku sérfræðinga í fundum framkvæmdastjórnarinnar. En eftir það geta þó tillögur hæglega breyst til muna og gera iðulega.

Ísland og önnur EES-ríki hafa engin áhrif á frumrétt ESB. Þau hafa ekki atkvæðisrétt þegar fjallað er um afleidda löggjöf eða breytingu á samstarfinu. EES-ríkin geta hins vegar neitað að taka upp nýja löggjöf sem snertir EES-samninginn en þá fellur viðkomandi kafli samningsins úr gildi fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein og aðgangur ríkjanna að innri markaði Evrópusambandsins á viðkomandi sviði er úr sögunni. Neitunarvaldið svokallaða er því óraunhæft og hefur því aldrei verið beitt, enda mundi það valda miklu uppnámi og stefna í hættu markmiðinu um einsleitni markaðssvæðisins og samræmingu reglna.

EES-samningurinn hefur sömuleiðis haft margvísleg áhrif á dómsvaldið sem ekki voru séð fyrir. Í hæstaréttardómi nr. 236/1999 frá 16. desember 1999 í svokölluðum Erlu Maríu dómi gekk Hæstiréttur lengra en áður og dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt vegna vanrækslu þess við lögfestingu á tilskipun frá Evrópusambandinu. Vísað var í niðurstöðu EFTA-dómstólsins nr. E 9/97 frá 10. desember 1998 þar sem íslensk stjórnvöld voru talin vera bótaskyld þrátt fyrir að EES-samningurinn segði ekkert um slíkan rétt til bóta.

Í ljósi þessara staðreynda tel ég fulla þörf á að samþykkja þessa þingsályktunartillögu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Það er einfaldlega of mikið í húfi þegar verið er að tala um sjálfa stjórnarskrána.

Ég ætla að nýta þann stutta tíma sem eftir er og renna yfir helstu kosti þá sem ég sé við inngöngu Íslands í ESB.

Ég get nefnt fimm punkta til að byrja með:

1. Fiskveiðistjórn og rétturinn til nýtingar auðlindarinnar mun ekki breytast við inngöngu í ESB.

2. Viðskiptakostnaðurinn mun minnka.

3. Fjárfestingar útlendinga munu aukast hér á landi, sem ég held að sé full þörf á að eigi sér stað og við þurfum ekkert að óttast að mínu viti.

4. Við mundum hafa stóraukin áhrif á löggjöf ESB.

5. Það er almenns eðlis. Við værum orðin hluti af Evrópu þar sem við eigum heima.

Ef við skautum örlítið yfir sjálfa sjávarútvegsstefnuna sem oft hefur verið helsti þröskuldurinn á vegi margra varðandi inngöngu Íslands í ESB þá byggist hún á veiðireynslu, þ.e. sjávarútvegsstefna ESB, og er Ísland eina þjóðin sem hefur veiðireynslu í íslenskri lögsögu. Samkvæmt núgildandi reglum Evrópusambandsins fengi því Ísland allan þann kvóta sem ákveðinn yrði í íslenskri lögsögu eftir að við gengjum í ESB.

Hægt er að gera kröfu um að erlend sjávarútvegsfyrirtæki sem ættu þá rétt á að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi mundu hafa raunveruleg efnahagsleg tengsl við Ísland og kemur það í veg fyrir að verðmæti á sjávarafurðum eigi greiða leið úr landi. Þetta er lykilhugtak í allri umræðu um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, það er að segja raunveruleg efnahagsleg tengsl. Þetta er regla sem Evrópudómstóllinn sjálfur hefur mótað. Þetta er regla sem mundi hagnast okkur afskaplega vel enda er hún mjög jákvæð fyrir svæði sem treysta mikið á sjávarafurðir og byggja afkomu sína á fiskveiðum.

Aðild Íslands að ESB væri ekkert sérstaklega kostnaðarsöm. Þetta hafa tölur sýnt. Íslendingar þyrftu að greiða til sambandsins en á móti fengi Ísland beina styrki. ESB hefur ætíð styrkt mikið harðbýlar og dreifðar byggðir og á það í rauninni við allt Ísland, svo ekki sé talað um landsbyggðina sem oft hallar á. Hins vegar mun fjárhagslegur ávinningur Íslands af inngöngu í ESB verða gríðarlegur burt séð frá styrkjum og aðildarkostnaði sem ég held að sé aukaatriði í þessari umræðu. Viðskiptakostnaður mundi minnka, fjárfestingar ykjust og vextir mundu lækka og verð til neytenda mundi hrynja.

Íslenskur almenningur er nú að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Niðurlagning krónunnar mundi þýða tugmilljarða króna ávinning á hverju einasta ári. Hagsveiflur milli Evrópu og Íslands mundu minnka með notkun sömu myntar. En með minnkandi vægi sjávarútvegs, sem er núna aðeins um 10% af landsframleiðslu Íslands, aðeins 10%, mundi draga úr hagsveiflunum á milli svæðanna. Með inngöngu Íslands í ESB yrði ódýrara fyrir íslensk fyrirtæki að eiga viðskipti við fyrirtæki frá ESB-löndunum og öfugt.

Útlendingar hefðu frekar áhuga á Íslandi sem fjárfestingarkosti og starfsstöð vitandi að Ísland væri hluti af alþjóðlegri blokk og að þar væru í gildi reglur sem þeir þekktu. Sérstaða fælir viðskipti frá þar sem hún hefur í för með sér kostnað við að kynna sér hana.

Með inngöngu Íslands í ESB yrði Ísland áþreifanlegur hluti af Evrópu. Öll svið mannlegs samfélags nytu góðs af inngöngu í ESB.

Að lokum er mikilvægt að muna að það er ekki ESB í hag að rústa litlu hagkerfi lengst norður í hafi enda mundi ESB aldrei taka ákvörðun gegn meginhagsmunum neinnar aðildarþjóðar.