Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:44:28 (7315)

2004-04-30 14:44:28# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég er einn af tveimur þingmönnum sem sitja nú í þessum sal og taka þátt í þessari umræðu, sem átti þátt í því að EES-samningurinn fór hér í gegn með samþykki meirihluta Alþingis á sínum tíma. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson lýsir mjög vel þeim efasemdum sem risu þá og álitamálum um hvort samningurinn stæðist stjórnarskrá lýðveldisins. Það er rétt hjá honum að sú var niðurstaða nefndar lögvísra manna sem var fengin til þess að fjalla um það. En þeir sögðu jafnframt að að þessu leytinu værum við á gráu svæði. Síðan hefur EES-samningurinn tekið jafnvel enn gagngerri breytingum en komu fram í máli hv. þm. Hv. þm. benti á að við höfum enga aðkomu að frumsmíð lagagerninga hjá Evrópusambandinu. Á sínum tíma skipti það öllu um niðurstöðuna varðandi stjórnarskrá að við Íslendingar höfðum þá aðkomu að sérfræðinganefndum framkvæmdastjórnarinnar. Þá voru hins vegar valdmörkin milli framkvæmdastjórnar og Evrópuþingsins töluvert öðruvísi en í dag. Þá var upphaf lagagerninga hjá framkvæmdastjórn ráðsins og Evrópuþingið hafði engin lýðræðisleg völd. Það gat ekki breytt þessum gerningum. Krafan um að vinna bug á lýðræðishallanum innan Evrópusambandsins leiddi til þess að Evrópuþingið fékk mikinn rétt og í dag hefur það endanlegt vald. Ef ágreiningur rís á milli framkvæmdastjórnar þar sem við höfum aðkomu í gegnum sérfræðinganefndir og Evrópuþingsins fara málin í ákveðið samráðsferli. Ef þá næst ekki niðurstaða sem báðir aðilar sætta sig við leiðir það til þess að Evrópuþingið hefur síðasta orðið. Lög sem koma frá Evrópuþinginu eru þess vegna oft allt öðruvísi en upphaflega var þegar við komum að þeim. Þetta tel ég að hafi ýtt EES-samningnum yfir hið gráa svæði og þess vegna samrýmist hann ekki lengur stjórnarskránni.