Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:53:46 (7319)

2004-04-30 14:53:46# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Frú forseti. Í kvöld er búist við miklum hátíðahöldum út um alla Evrópu þegar 25 ríki sameinast í Evrópu, 10 ný ríki stíga inn í 15 landa samvinnu á vettvangi Evrópusambandsins ásamt þremur EFTA-löndum. Um þetta var fjallað í morgunútvarpi í morgun. Íbúafjöldinn eykst úr 385 milljónum í 460 milljónir.

Alþingi hefur nýlokið við að breyta lögum um frjálsa för verkafólks og nýtir þar með aðlögunarrétt til þess að skapa ekki of mikið álag á viðkvæmt atvinnulíf okkar. Miklar breytingar verða við innkomu nýju þjóðanna. Búast má við flutningi fólks sem leitar gæfunnar á nýjum slóðum eftir opnunina. Sömuleiðis mun það gerast að fyrirtæki nýti sér ódýrara vinnuafl og flytji framleiðslu og störf til nýju landanna að einhverju marki því einhvern tíma mun takast að ná nýju löndunum upp á sama velferðarplan og löndin sem fyrir eru í Evrópusambandinu eru á. Til lengri tíma litið má vænta þess að þetta stóra samband verði allra hagur.

Ég verð að gera það að umtalsefni við umræðuna hvert friðarferlið sem fylgt hefur þróun Evrópusambandsins er sem er allt of sjaldan staldrað við í umræðu um ESB. Í ár munum við halda upp á 60 ára afmæli íslenska lýðveldisins og árið sem við urðum alveg sjálfstæð logaði Evrópa í stríðsátökum, árið 1944. Það er hollt að leiða hugann að þeim miklu breytingum sem fylgt hafa samvinnuþróuninni í Evrópu að öll þessi lönd skuli í dag starfa saman, sitja við sama borð og stefna í sömu átt. Þetta er allt of sjaldan nefnt í umræðunni um Evrópusambandið og samvinnu í Evrópu.

Störf og starfsemi mun flytjast á milli landa, en um þessar mundir gerist það sömuleiðis að störf og starfsemi flyst til fjarlægari landa. Hingað til hefur það helst verið til Kína, en Indland sækir á og Palestína sömuleiðis, sem vilja fá hlutdeild í framleiðslu Vesturlanda. Vandamálin í Evrópu verða því sameiginleg hvað þetta varðar á komandi árum.

EES-samningurinn hefur verið okkur ákaflega mikilvægur. Hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, tók svo djúpt í árinni í umræðum um utanríkismál í haust að segja að EES-samningurinn væri undirstaða þeirrar velferðar sem Íslendingar búa við í dag, ekkert minna. Á þeim tíma sem samningurinn var gerður voru stjórnvöld og við öll sannfærð um að hann bryti ekki í bága við stjórnarskrá, eins og fram hefur komið, en miklar breytingar hafa orðið á stofnunum og skipulagi Evrópusambandsins síðan. Sömuleiðis hefur hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, nefnt að samningurinn sé ef til vill kominn á svig við stjórnskipunarlög okkar. Það er í meira lagi óþægilegt að búa við það að vita ekki hvort samningurinn eins og hann er í dag brjóti í bága við stjórnarskrá eða ekki. Það er óþolandi að það mál sé ekki útkljáð. Þess vegna er málið sem við ræðum í dag mjög mikilvægt og tillaga Katrínar Júlíusdóttur góð og nauðsynleg.

Þegar við gerðum samninginn voru EFTA-löndin sex og í Evrópusambandinu voru 12 lönd. Árið 1995 voru EFTA-löndin þrjú og Evrópusambandslöndin 15. Þann 1. maí, á morgun, verða EFTA-löndin þrjú og Evrópusambandslöndin 25. Það er gífurlegt ójafnvægi og gefur samningnum og samningsstöðu okkar allt aðra stöðu en fyrr á árum.

Það er áhyggjuefni og kom fram í orðum og málflutningi Díönu Wallis. Díana Wallis er fulltrúi á Evrópusambandsþinginu og hefur með málefni Norðurslóða og Noregs, Íslands og Liechtensteins, þ.e. EFTA-landanna að gera. Hún lýsti því á fundi í Norræna húsinu og hefur lýst því í viðtölum, að komin sé ný kynslóð á Evrópuþingið, kynslóð sem þekkir ekki hugmyndafræðina á bak við Evrópska efnahagssvæðið. Kynslóð sem er upptekin af stækkun Evrópu, á víðari Evrópu og því hvað ný landamæri í Austur munu þýða fyrir Evrópu, hvernig eigi að halda á málum gagnvart hinum nýju nágrönnum handan hinna nýju landamæra.

Þegar hún og aðrir okkur vinveitt eru að reyna að tala fyrir EES-samningnum og útskýra vanda t.d. okkar Íslendinga segir hún að það sé bara yppt öxlum og sagt: Við erum með allt of stór verkefni, við höfum allt of stórum málum að sinna varðandi stækkun Evrópusambandsins að leysa þau mál sem verða í nýrri 25 landa Evrópu og að horfa til nýju landanna, nágrannanna, og hjálpa þeim til að komast t.d. innan einhvers árabils inn á viðskiptasvæði okkar og í fyllingu tímans ef til vill að verða meðlimir í Evrópusambandinu. Ísland, Noregur og Liechtenstein verða bara að fara að gera upp við sig: Ætla þau að vera með eða ætla þau ekki að vera með?

Það er alveg nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að þannig mun það verða á komandi árum. Það verður aftur og aftur sagt við okkur: Þið verðið að fara að gera upp við ykkur hvar þið ætlið að standa. Ætlið þið að vera með í Evrópu eða ekki? Við getum ekki sinnt þessum þremur litlu löndum.

Það er líka athyglisvert að nei-hliðin á Íslandi þegar um er að ræða Evrópusambandsaðild telur að við aðild missi Ísland sjálfstæði sitt og verði undirlagt ákvörðunum í Brussel. En já-hliðin bendir á að við séum skyldug að taka við lögum og reglum um innri markaðinn gegnum Evrópska efnahagssvæðið og séum háð Brussel með alla atvinnuvegalöggjöf okkar og þess vegna sé betra að vera við borðið. Þetta er auðvitað afskaplega mikið einfaldað, en innihaldið er þetta.

[15:00]

Eins og fram kemur í greinargerðinni höfum við mjög óvirkt neitunarvald. Ég átti þess kost að sitja fund í Helsinki í desember á vegum Alþingis um Evrópu og Evrópusambandið. Það var frekar pínlegt hve berlega kom í ljós að hin löndin eru í nánu sambandi allan tímann, frá því að umræða hefst við fyrstu gerð málanna innan Evrópusambandsins. Það er sérstaklega til fyrirmyndar í Finnlandi að málin koma sennilega í þremur umferðum inn í þingið, í gegnum samvinnu við utanríkisráðuneyti og samvinnu við Evrópunefndina. Málin koma inn á frumstigi, þá á vinnslustigi og í lokin koma þau inn í þessa ,,grand committee``-nefnd sem varð til á sínum tíma þegar Finnland varð sjálfstætt. Með henni vildu þeir tryggja að ekkert mál yrði að lögum sem gæti brotið í bága við stjórnarskrá og mættum við taka okkur það til fyrirmyndar.

Við, fulltrúar Íslands og Noregs á þessum fundi, sögðum bara: Þetta er óþægilegt. Við tökum við öllum þeirra gerðum, tilskipunum og leiðbeiningum og leggjum fyrir utanrmn. og segjum bara já og amen. Svo er búin til löggjöf. Við verðum að horfast í augu við að staða okkar til að hafa áhrif er veik. En vissulega er betra en ekki að vera á Evrópska efnahagssvæðinu og ég tek undir það að samningurinn hefur veitt okkur gífurlega mikla velferð.