Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:26:39 (7326)

2004-04-30 15:26:39# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., Flm. KJúl
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Flm. (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en öllu heldur þakka fyrir hana. Hér hefur margt komið fram sem styrkir þá afstöðu mína að skoða þurfi sem allra fyrst afstöðu EES-samningsins gagnvart þessu fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.

Það eina sem valdið hefur mér áhyggjum er að í umræðunni hafa einungis talað samfylkingarmenn. Það endurspeglar kannski dálítið hvar áhugi þingheims liggur þegar að þessum málaflokki kemur. Ég spyr: Áttar ríkisstjórnin sig ekki á því hve samningurinn er okkur mikilvægur? Hann er að veikjast og menn þurfa að fara að horfast í augu við það. Því sakna ég þess að stjórnarþingmenn hafi ekki setið hér og tekið þátt í umræðunni um þetta mikilvæga mál. Nægur er tíminn vegna þess að málið er síðasta mál á dagskrá í dag og klukkan er ekki nema þrjú. Þetta veldur mér áhyggjum, frú forseti, vegna þess að ég tel að við höfum ekki mikinn tíma til stefnu.

Mig langar aðeins í tilefni af umræðunni sem spannst um sjávarútveginn að hnykkja á örfáum atriðum, vegna þess að andstæðingar aðildarviðræðna nota oft og tíðum sjávarútveginn sem vopn og því er haldið fram og fullyrt að hann verði tekinn af okkur og landhelgin muni fyllast af Spánverjum og skipum annars staðar frá, og nefna það að í stofnsáttmála Evrópusambandsins er klásúla um að það verði aldrei vegið að grundvallarhagsmunum nokkurrar þjóðar, nokkurs aðildarríkis.

Hvað varðar sjávarútveginn er augljóslega um grundvallarhagsmuni fyrir Íslendinga að ræða vegna þess að í gegnum hann fáum við um 40% af gjaldeyristekjum okkar. Ekkert annað ríki í Evrópu fær svo hátt hlutfall af gjaldeyristekjum sínum úr sjávarútvegi. Ef slíkar svartsýnisspár yrðu niðurstaðan þýddi það að Evrópusambandið hefði einungis áhuga á því að hirða af okkur auðlindirnar og gera okkur að þiggjendum velferðarkerfis sambandsins. Ég leyfi stórlega að efast um að það sé reyndin. Í þessu sambandi hefur oft verið talað um Noreg en ég lít svo á að það sé mikilvægt fyrir okkur að ganga inn í Evrópusambandið á undan Noregi einmitt út af sjávarútveginum. Við sáum hvaða niðurstöðu Norðmenn fengu í aðildarviðræðum sínum. Þar var gert töluvert mikið úr hluta sjávarútvegsins á grundvelli svæðisbundinna hagsmuna, á grundvelli þess að um 12% af vöruútflutningi þeirra koma úr sjávarútveginum. Rúm 60% af vöruútflutningi okkar koma úr sjávarútvegi. Á grundvelli þessara svæðisbundnu hagsmuna náðu þeir fram töluvert góðum samningum þegar kom að sjávarútveginum, t.d. að þeir fengju framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins og fleiri þætti. Ég hef því verulegar áhyggjur af því ef forgöngumenn á undan okkur í aðildarviðræðum og þeir sem eiga að búa til fordæmi hvað varðar sjávarútveginn og skilgreina hann verða Norðmenn.

Ég tel að við getum ekki beðið miklu lengur. Ég vil nefna það hér að mér þótti áðurnefnd Berlínarræða hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar, sem hann flutti, ég held í mars 2002, alveg ofboðslega góð og hún rammaði eiginlega inn umræðuna um sjávarútvegsmálin og þá möguleika sem við eigum á því, vegna þess að málið snýst um grundvallarhagsmuni, að geta skilgreint hafsvæðið í kringum Ísland þannig að það lúti sérstökum stjórnsýslulögum. Við höfum fordæmi fyrir því í aðildarviðræðum, þ.e. þegar heimskautalandbúnaðurinn varð til í aðildarviðræðum við Finna, að mig minnir, og núna er svæði fyrir ofan ákveðna breiddargráðu skilgreint svæði í landbúnaði. Þannig varð það til. Og vegna þess hvernig sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er uppbyggð tel ég þetta raunhæfan möguleika alveg eins og hæstv. utanrrh. gat um í áðurnefndri ræðu.

Ég sakna þess reyndar að heyra varla talað um þessi mál lengur hjá Framsfl. vegna þess að ég taldi og var að vona þegar ræðan var flutt að hann tæki hagsmuni Íslendinga fram yfir flokkslega hagsmuni og forsætisráðherrastól og reyndi að koma þessu brýna hagsmunamáli í gegn, vegna þess að mér fannst utanrrh. tala af sannfæringu á þeim tíma.

Ég ætla að lokum að segja að ég tel sjávarútveginn og stöðu hans hér á landi vera okkar sterkasta vopn í aðildarviðræðum af því að það markar okkur sérstöðu. Ég hef engar áhyggjur af því að okkar lið í utanríkisbransanum geti ekki náð góðum samningi fyrir okkur og tryggt þá hagsmuni.