Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:06:26 (7331)

2004-05-03 15:06:26# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Mörður Árnason:

Forseti. Hæstv. forsrh. verður auðvitað að skipa mönnum sínum til verka eins og honum líkar og hann virðist hafa meiri áhuga á að klára Norðurljós í lok þings en að svara skýrslubeiðnum þingmanna um jafnmikilvært lýðræðismál og fjármagn til stjórnmálaflokkanna. Hefur þó í fjölmiðlaumræðunni verið vitnað afar hvatskeytislega í Evróputilmæli seint og snemma eins og rakið verður væntanlega síðar í dag.

Ég vil segja frá því líka að rétt áður en ég gekk hér inn fékk ég bréf í hendur, dagsett 28. apríl, þar sem ráðuneytið, hið sama háa ráðuneyti, fer fram á frest þangað til á næsta þingi til að svara sárasaklausri fyrirspurn minni um hvernig stæði á því að forsrh. héldi einu fram í ræðustól en svaraði hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni öðru. Þetta var um kostnað við skýrslur. Það virðist vera svo umfangsmikið, eins og hér stendur, að upplýsa þetta misræmi milli orða hæstv. forsrh. og síðan þess sem drýpur úr penna hans eða ráðuneytisstarfsmanna hans að það þarf að hafa heilt sumar undir.

Málið er það að hæstv. forsrh. er ósköp einfaldlega að koma sér undan því að svara óþægilegum spurningum, svo sem að leggja fram skýrslur sem ekki henta honum og ríkisstjórn hans í þeim verkefnum sem hún hefur sett sér hér, að halda áfram því ofbeldi og þeirri geðþóttastjórn sem því miður hefur verið tekin upp hér á landi á síðari tímum þessa lýðveldis.