Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:10:04 (7333)

2004-05-03 15:10:04# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er afar einkennilegt hvað það gengur hægt að þoka málum fram hvað varðar lög og reglur um fjármál stjórnmálaflokka. Við höfum ítrekað lýst því yfir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við viljum sjá löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka, um samskipti stjórnmálalífsins við fyrirtæki og um opinberan fjárstuðning við stjórnmálastarfsemina og þar með við lýðræðið í landinu. Allar reglur af þessu tagi vantar í lög á Íslandi og ég hygg að við séum eitt örfárra vestrænna ríkja, ef ekki lýðræðisríkja yfir höfuð, í heiminum sem ekki hefur neinar opinberar lögbundnar reglur af þessu tagi.

Hvað okkur varðar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum við einfaldlega gert hreint fyrir okkar dyrum. Það geta stjórnmálaflokkarnir að sjálfsögðu gert ef þeir svo kjósa. Bókhald okkar er opið, það er endurskoðað af löggiltum endurskoðanda og lagt þannig fram á landsfundum hverju sinni. Við höfum skýrar reglur um fjármálaleg samskipti við fyrirtæki. Ef einstakur styrktaraðili leggur meira af mörkum en 300 þús. kr. á ári er nafn hans tilgreint.

Ég vil leyfa mér að spyrja í ljósi þess að menn draga fram til vitnisburðar samþykktir Evrópuráðsins og bera sig mjög saman við önnur lönd í ýmsum tilvikum, og það er gjarnan gagnlegt: Hlýtur þá ekki hið sama að eiga við hér? Ef við lítum umhverfis okkar mælir auðvitað allt með því að þetta svið verði tekið fyrir og því komið í eitthvert skikkanlegt horf, eitthvað svipað og viðgengst annars staðar. Hvaða rök ættu að vera fyrir því að reglur sem menn telja nánast alls staðar annars staðar nauðsynlegt að hafa eigi ekki við og þurfi ekki hér? Ég held að það þurfi að færa fram sterk rök fyrir því að stjórnmálalíf okkar sé með einhverjum slíkum algerlega sérstökum hætti að reglur sem eru alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum og víðast hvar í kringum okkur eigi ekki við hér. Er ekki hægt að nota sumarið í það m.a. að setjast yfir þetta mál hverjar sem niðurstöður verða hvað varðar aðra hluti hér?