Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:21:44 (7339)

2004-05-03 15:21:44# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta en vil gera grein fyrir málavöxtum með eftirfarandi hætti.

Sá fáheyrði atburður átti sér stað í efh.- og viðskn. þingsins á fundi sem boðað var til klukkan eitt í dag að hv. formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, reyndi að rífa út úr nefndinni þingmál.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að ég benti honum á það fyrir fram að ekki væri rétt að taka þetta mál upp undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. En ég mun eftir atvikum, vegna þess hversu rýmilegur ég er í stjórn þingsins, gefa hv. þm. tækifæri til að ljúka máli sínu en vil biðja hann eftirleiðis að taka mál upp undir réttum dagskrárlið.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir og tel mig gera það.

Hv. formaður efh.- og viðskn. reyndi að rífa þingmál út úr nefnd gegn vilja meiri hluta nefndarinnar. Hann byrjaði á að bera upp dagskrártillögu til að koma í veg fyrir nokkrar umræður um umdeilt frv. sem var til umfjöllunar. Síðan bar hann undir atkvæði nefndarinnar hvort hún væri tilbúin að taka málið út úr nefnd. Það var fellt. Meiri hluti nefndarinnar lagðist gegn því. Þá lagði hann fram aðra tillögu, um að málið yrði tekið út á grundvelli fleiri álita en eins, þessara þriggja álita. Hann bar það undir atkvæði fundarins og það var fellt.

Síðan kom fram tillaga frá okkur, dagskrártillaga, um að ekki yrði gengið frá málinu fyrr en gestir yrðu kallaðir fyrir nefndina til að ræða breytingatillögur sem fram höfðu komið. Formaður nefndarinnar neitaði að verða við því. Hann ákvað hins vegar upp á sitt eindæmi að rífa málið út úr nefndinni. Þar kem ég að hlut hæstv. forseta. Hann vísaði í úrskurð hæstv. forseta þingsins um að þetta væri heimilt. Stjórnarandstaðan óskaði í kjölfarið eftir fundi með forseta þingsins þar sem hún vildi fá að vita hvort hæstv. forseti liti svo á að heimilt væri að taka mál út úr þingnefnd með þessum hætti. Við höfum ekki fengið endanlegt svar við þessu en hæstv. forseti hefur engu að síður tjáð okkur, áður en þingfundur hófst, að nefndin yrði kölluð saman að nýju.

Ég lít svo á, hæstv. forseti, að hér hafi verið gerð tilraun til að viðhafa mjög ólýðræðisleg vinnubrögð í þinginu. Ég lít svo á að þegar nefndin kemur saman að nýju þá hljóti að þurfa meiri hluta nefndarinnar, lýðræðislegan vilja, að baki því að taka málið út úr nefndinni.