Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:41:35 (7349)

2004-05-03 15:41:35# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta var fróðleg og skemmtileg upprifjun frá dögum þeirrar sælu ríkisstjórnar sem sat undir forsæti Gunnars Thoroddsens. Ég vil einungis árétta að ég tel, og er sammála hæstv. forseta um það, að minni hluti nefndar getur hverju sinni sem hann vill ákveðið að senda frá sér nefndarálit. En minni hluti nefndar getur ekki ákveðið að ljúka endanlegri umfjöllun í nefnd. Það verður nefndin sjálf að taka ákvörðun um og það gerir hún með afli atkvæða ef þarf. Það eru ýmis dæmi um það áður.

Hins vegar vil ég segja og láta það koma alveg skýrt fram að ég tel að minni hlutanum sé ekki stætt á því þegar hann telur að málið sé fullrannsakað, þegar búið er að skoða það út í hörgul og ekki þarf að brjóta það frekar til mergjar, að liggja á því máli. Ég vil að það komi fram og það hef ég sagt áður.

Það kom hins vegar fram hjá hæstv. forseta að hann hefði átt ánægjulegan fund með hv. þm. Pétri H. Blöndal, formanni efh.- og viðskn., og að formaðurinn hefði fallist á að hafa fund á morgun. Það þurfti með öðrum orðum atbeina hæstv. forseta til þess að ekki væri brotið gegn rétti okkar í stjórnarandstöðunni. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort það sé þá ekki réttur skilningur hjá mér að hæstv. forseti hefur tekið þá afstöðu að vinnslu málsins sé ekki lokið í efh.- og viðskn. því ella hefði hann ekki hlutast til þess að á morgun yrði fundur um málið. Er það ekki réttur skilningur hjá mér, herra forseti?