Afbrigði

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:50:00 (7354)

2004-05-03 15:50:00# 130. lþ. 108.96 fundur 529#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), MÞH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Magnús Þór Hafsteinsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þingflokkur Frjálsl. mun leggjast gegn því að þetta mál verði tekið upp á hinu háa Alþingi. Hér er um mjög umdeilt mál að ræða. Við teljum að það sé illa undirbúið, frv. sem hér á að leggja fram sé hroðvirknislega unnið og það sé meira en nægur tími til að skoða þessi mál á sumri komanda, taka það upp í þinginu næsta haust og vinna það síðan næsta vetur almennilega eins og fólk á að gera. Hér er um gríðarlega stórt og mikið og vandasamt mál að ræða sem snertir hagsmuni fjölmargra Íslendinga og við getum ekki leyft okkur það, herra forseti, að afgreiða þetta mál með svo hroðvirknislegum hætti sem nú stefnir í.

Mér varð litið út um gluggann rétt áðan. Hér fyrir utan stendur mannfjöldi og veifar banönum. Á Austurvelli er fólk með banana. Þetta er sennilega í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sem fólk stendur fyrir framan hið háa Alþingi og veifar þeim ávöxtum. Hvað það á að þýða veit ég ekki. Ég læt hverjum og einum það eftir að túlka það með sínum hætti.