Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:12:02 (7358)

2004-05-03 16:12:02# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fyrsta sem fjölmiðlanefndin leggur til er að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins með það að markmiði að tryggja því trausta stöðu til frambúðar á ljósvakamarkaði. Í grein Páls Þórhallssonar, lögfræðings hjá Evrópuráðinu, í Morgunblaðinu í gær er bent á tilmæli Evrópuráðsins um þjóðarútvarp og sagt að Ríkisútvarpið á Íslandi sé ekki nógu sjálfstætt ef hliðsjón er tekin af þróuninni í Evrópu, ríkisstjórnarmeirihlutinn skipi meiri hluta útvarpsráðs sem fjalli jafnframt um ráðningar fréttamanna. Þetta þyki ekki góð latína hjá Evrópuráðinu og fundnar hafi verið leiðir til að tryggja að slíkt ráð gæti almannahagsmuna en ekki stjórnarmeirihluti hverju sinni.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að þetta er það fyrsta sem nefndin leggur til og gerir meira að segja jafnframt ráð fyrir, ef skilja má textann í skýrslu hennar, að þetta úrræði gæti dugað eitt og sér spyr ég hæstv. forsrh.: Hvers vegna byrjar ríkisstjórnin ekki á því að tryggja þennan þátt málsins? Hvers vegna mátti ekki bíða með frv. sem hér liggur fyrir og taka þennan mikilvægasta þátt að mati nefndarinnar inn í frv.?