Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:23:38 (7370)

2004-05-03 16:23:38# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum aldrei verið á móti því að taka þessa umræðu, langt í frá. Ég minntist á það í ræðu minni um daginn að það væri alveg sjálfsagt og benti m.a. á þá þáltill. sem hæstv. forsrh. var að veifa áðan.

Það er stór munur á því að ræða málin og ræða það að setja lög á menn.

Herra forseti. Í frv. kemur fram að óheimilt sé að veita fyrirtækjum útvarpsleyfi sem eiga meira en 25% eignarhlut í hinu og þessu. Forsrh. veit eflaust hvað ég er að tala um.

Nú háttar svo til að Morgunblaðið, sem er í eigu sjálfstæðismanna og hæstv. dómsmrh. og ráðherra í ríkisstjórn Íslands er einn af hluthöfum í, er eini eigandi að stærsta netmiðli Íslands, mbl.is. Það er hægur vandi með nútímatækni að útvarpa í gegnum internetið. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann sjái enga hagsmunaárekstra í því að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem á hlut að frv., eigi hlut í Morgunblaðinu og að Árvakur eigi að fullu stærsta og nánast eina netfréttamiðil Íslands.