Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:30:48 (7378)

2004-05-03 16:30:48# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Samf. leggst gegn því frv. sem hér er um að ræða. Við teljum að í því sé höggvið mjög nærri tjáningarfrelsi og athafnafrelsi. Við teljum að það þrengi óeðlilega að rekstrargrundvelli fjölmiðlanna og þar með að einum mikilvægasta grundvelli lýðræðissamfélagsins.

Frumvarpið er flutt í nafni fjölbreytni á fjölmiðlavettvangi en við teljum að í því felist sú hætta að það muni leiða til fábreytni í innihaldi dagskrár og framboði efnis. Störfum hundruða manna í vaxandi atvinnugrein er jafnframt stefnt í hættu. Frumvarpið sýnist vera afturvirkt og það mun að öllum líkindum skapa ríkinu skaðabótaskyldu sem gæti hlaupið á milljörðum. Virtir lögfræðingar telja jafnframt að það geti brotið í bága við stjórnarskrána.

Það er athyglisvert, herra forseti, að frv. gengur gegn ýmsum meginniðurstöðum fjölmiðlaskýrslunnar. Ég er sammála hæstv. forsrh. um að sú skýrsla er býsna gott plagg. En í frv. er ekki farið að eindregnum tilmælum í skýrslunni um að setja lög um aðgang almennings að upplýsingum um eignarhald og ekki að eindregnum óskum um að skylda fjölmiðla til að setja sér innri reglur sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum. Það kann að vera að það eigi að huga að því, eins og hæstv. forsrh. segir, en hvers vegna í ósköpunum er það ekki í frv.?

Frumvarpið á að festa í lög tilmæli Evrópuráðsins en í frv. er samt sem áður ekki að finna fjölmörg tilmæli ráðsins, svo sem um að pólitískir áhrifamenn úthluti ekki útvarpsleyfum eða að pólitískur meiri hluti fjalli ekki um ráðningar fréttamanna á ríkismiðlum.

Frumvarpið, eins og þegar hefur komið fram í þessari umræðu, hunsar algjörlega tilmæli Evrópuráðsins og tillögur fjölmiðlanefndarinnar um að efla RÚV sem almenningsmiðil til að tryggja fjölbreytni á markaði.

Herra forseti. Þó að það sé hvergi tíundað þá hlýtur tilgangur frv. að vera að bægja frá möguleikum á að eigendur misnoti stóra fjölmiðla með einhverjum hætti í eigin þágu. Þeim tilgangi er hægt að ná með því að beita hugmyndum Samf. um lög sem tryggja sjálfstæði ritstjórna, um lög sem tryggja gagnsæi um eignarhald og ekki síst með því að beita samkeppnislögum, eins og hæstv. dómsmrh. hefur manna best rökstutt mörgum sinnum þótt hann hafi að vísu sýnt aðdáunarverðan sveigjanleika í skoðunum með því að skipta um þær samstundis og þetta frv. var lagt fram.

Ég lít því svo á að þetta frv. forsrh. sé óþarft. Það þjónar ekki markmiðum um fjölbreytni heldur fyrst og fremst geðþótta stjórnamálamanna sem þola ekki eðlilega gagnrýni.

Samf. hefur sérstaklega vakið máls á því að tímabært sé að ræða stöðu fjölmiðlunar hér á landi. Hún hefur af þeim sökum lagt fram tvö þingmál, þar af annað sem tekur beinlínis á sömu málum og frv. hæstv. forsrh. Málefni íslenskra fjölmiðla, ekki síst kostir og gallar samþjöppunar á eignarhaldi, þurfa alvarlega og mikla umræðu. Þau verður að ræða í samhengi við allan markaðinn. Það er ekki hægt að ræða íslenska fjölmiðlun nema taka stöðu, þróun og stjórnsýslu Ríkisútvarpsins með. Þess vegna átel ég þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og tel þau í reynd fráleit.

Ríkisstjórnin kastar inn á þing, korteri fyrir þinglok, frumvarpi og ætlast til þess að umræðulítið séu samþykktar grundvallarbreytingar á frelsi fjölmiðla. Þær kunna hugsanlega að fela í sér brot á stjórnarskrá og það á að ræða það án þess að teknar séu ákvarðanir um breytingar á Ríkisútvarpinu, án þess t.d. að nokkuð sé rætt um að skilyrða leyfisveitingar kröfum um innlenda dagskrá eða annað af skyldu tagi.

Þetta finnast mér, herra forseti, vera skrýtin vinnubrögð. Þau eru ekki síst skrýtin í ljósi þess að á sama tíma er ríkisstjórnin að tala um gagngerar breytingar á umhverfi RÚV, t.d. að fella burt skylduáskrift og taka RÚV út af auglýsingamarkaði. Hvort tveggja eru athyglisverðar hugmyndir en þær hljóta óhjákvæmilega að skapa óvissu um rekstrarforsendur og markaðsvirði annarra fjölmiðla. Á þetta er þó ekki einu sinni drepið í frv. ríkisstjórnarinnar. Það er rætt svona til hliðar og helst þegar hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar komast í vanda í umræðu um frv.

Ríkisstjórnin segir brýnt, og hæstv. forsrh. lagði á það sérstaka áherslu, að leggja fram þetta frv. af því að ríkisstjórnin hafi þjóðréttarlegar skuldbindingar til að fara að tilmælum Evrópuráðsins. Þetta finnst okkur í Samf. athyglisvert í ljósi þess að Evrópuráðið telur fjölmörg önnur atriði jafnbrýn og jafnvel brýnni sem er ekki að finna í frv.

Tilmæli Evrópuráðsins frá 1996 mæla gegn því að pólitískt skipað útvarpsráð fjalli um ráðningar fréttamanna. Því er ekki breytt þrátt fyrir að ríkisstjórnin telji óskaplega brýnt að fara að ábendingum ráðsins.

Tilmæli Evrópuráðsins frá 2000 mæla gegn því að þeir sem sitja í nefndum sem úthluta útvarpsleyfum séu undir áhrifum frá pólitískum öflum. Því er ekki breytt og ég leyfi mér að upplýsa hæstv. forsrh. um að enn situr formaður útvarpsréttarnefndar sem er líka framkvæmdastjóri Sjálfstfl.

Tilmæli frá 1999 mæla með því að staða miðla eins og RÚV sé tryggð sem almenningsútvarps. Frumvarpið fjallar ekkert um það. Þvert á móti lýsti einn hv. þm. Sjálfstfl. því yfir fyrir tveimur sólarhringum að hugsanlega gæti myndast samstaða innan Sjálfstfl. um að selja Ríkisútvarpið. Er það kannski skýringin á því að það má ekki ræða RÚV í tengslum við fjölmiðlamarkaðinn?

Tilmæli Evrópuráðsins frá 1994 fela í sér að setja beri lög sem tryggi að almenningur eigi greiða leið að upplýsingum um eignarhald á fjölmiðlum til að geta metið trúverðugleika. Það er nýlegt dæmi um forkastanlegt brot á þessari reglu hér á landi en um þetta er ekkert í frv.

Tilmæli Evrópuráðsins mæla eindregið með því að lög verndi sjálfstæði ritstjórna gegn misnotkun eigenda, sem við í Samf. teljum vægari en jafnframt áhrifaríkari leið til að vinna gegn áhrifum samþjöppunar en þær leiðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram. Það er heldur ekki í frv. ríkisstjórnarinnar en hæstv. forsrh. ætlar allra náðarsamlegast að leyfa að hugað verði að því í nefnd.

Hver er skýringin á því, herra forseti, að ekki eru sett lög sem tryggja þessa þætti fyrst ríkisstjórnin telur sig hafa þjóðréttarlegar skuldbindingar til þess að fara að tilmælum Evrópuráðsins um fjölmiðla?

Á Íslandi hafa ólíkir flokkar og stjórnmálamenn jafnan reynt að mynda breiða samstöðu um þætti sem varða grunnatriði lýðræðisins. Eitt af því er tjáningarfrelsið og þar með þróun fjölmiðla. Ég rifja það upp að jafnvel á tímum kalda stríðsins, þegar stjórnmálin loguðu af ágreiningi, lögðu ábyrgir forustumenn sig fram um að mynda breiða samstöðu um mál eins og Ríkisútvarpið sem fjölmiðil allra landsmanna. Það gerðu menn af því að þeir töldu að það væri menningarlegur bakhjarl Íslendinga. En þessi ríkisstjórn hefur vikið frá hinni lýðræðislegu hefð um breiða samstöðu um grundvallarþætti. Hún forsmáir hina íslensku hefð um samráð þegar unnið er að málum sem varða slík grundvallaratriði.

Helsti sérfræðingur Evrópuráðsins varðandi stefnu þess um fjölmiðla er Íslendingur. Það var ekki haft samráð við hann. Það var ekki haft samráð við samtök blaðamanna. Það var ekki haft samráð við fyrirtækin sem þessi lög varða þó. Offorsið var jafnvel svo mikið að til að tryggja rétta niðurstöðu fengu hæstv. ráðherrar Framsfl. ekki að sjá skýrsluna fyrr en sama dag og frv. var lagt fram og átti það þó að byggjast á skýrslunni.

Einn af höfundum fjölmiðlaskýrslunnar hefur opinberlega fordæmt þessi vinnubrögð og segir þau óheppileg. Hann hefur sagt að þau vinni gegn því að hægt sé að ræða þróun fjölmiðla hér á landi með yfirveguðum hætti. Er nema von þó Páll Þórhallsson, sérfræðingur Evrópuráðsins um fjölmiðlamarkað álfunnar, spyrji í fyrirsögn í grein í Morgunblaðinu í gær: Helgar tilgangurinn meðalið?

Helsta ástæðan sem í orði er gefin fyrir nauðsyn þess að takmarka eignarhald á fjölmiðlum með þeim hætti sem nú er lagður til er að tryggja fjölbreytni. Nú er það svo að við, sem höfum fylgst með fjölmiðlum og höfum jafnvel sum nokkra reynslu af fjölmiðlun, vitum vel að það hefur aldrei verið önnur eins gróska í fjölmiðlun á Íslandi og nú. Samkeppnin hefur heldur aldrei verið meiri, úrvalið aldrei meira, fjölbreytnin aldrei meiri. Það ríkir vor í íslenskri fjölmiðlun. Og ein af merkustu niðurstöðum skýrslunnar sem hæstv. forsrh. hefur lofað er einmitt að það ríki mikil fjölbreytni á fjölmiðlamarkaðnum í dag.

Um dagblaðamarkaðinn segir á bls. 11 í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

,,... þau blöð sem eftir eru standa sterkar að vígi en áður og geta boðið lesendum sínum upp á betri þjónustu og aukið efnisval.``

Um hljóðvarpsmarkaðinn segir á bls. 13, með leyfi forseta:

,,Fjölbreytni er mikil á hljóðvarpsmarkaði þegar litið er fjölda stöðva ...``

Um sjónvarpsmarkaðinn segir á bls. 23:

,,Íslenskur sjónvarpsmarkaður er fjölbreyttur þegar litið er til fjölda sjónvarpsstöðva og að teknu tilliti til smæðar íslensk þjóðfélags.``

Síðar segir í skýrslunni á bls. 81, með leyfi forseta:

,,Þá verður að telja að skipting markaðar fyrir sjónvarp á þá þrjá aðila sem allir hafa marktæka stöðu á markaði, sé ásættanleg þegar höfð er í huga smæð markaðarins.``

Um markaðinn í heild segja höfundar að sé litið fram hjá eignarhaldi hafi þróunin undanfarin missiri --- eftir að hið óttalega fyrirtæki Norðurljós varð til í núverandi mynd --- með leyfi forseta, ,,verið á margan hátt jákvæð``.

Það er því deginum ljósara að höfundar fjölmiðlaskýrslunnar finna ekkert að efnistökum og innihaldi fjölmiðlanna sem nú eru á markaði sem bendir til að fjölbreytni sé í svo mikilli hættu vegna samþjöppunar að það sé þörf á tafarlausri og brýnni lagasetningu.

Hvaða nauð rekur menn til þess á hinu háa Alþingi að það þurfi nánast með hraða ljóssins að reka í gegn frv. sem setur í uppnám afkomu fjölmargra starfsmanna í fjölmiðlum? Hvaða sérstöku aðstæður eru fyrir hendi sem gera það að verkum að í einu vetfangi þarf að samþykkja lög sem eiga að tryggja fjölbreytni, sem nefndin segir að sé til staðar? Það er ekkert sem segir það, ekkert nema geðþótti valdsins.

Vissulega segja höfundar að í ljósi samþjöppunar og eignatengsla séu á markaðnum ýmis einkenni sem í ljósi alþjóðlegra viðmiðana teljist óheppileg. Þeir segja að sönnu afar æskilegt að bregðast við með lagasetningu en ekkert í textanum segir að það þurfi að gerast tafarlaust. Ekkert kemur fram hjá þeim sem bendir til þess að þeir telji óhjákvæmilegt að ráðast í það með þessum hætti, svo að segja án umræðu í samfélaginu. Eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur fjallað um benda þeir líka á leiðir sem ná þessu marki án lagasetningar.

Það er að mínu mati athyglisvert að margt í þessu stutta frv. gengur gegn yfirlýstum tilgangi þess varðandi fjölbreytni í fjölmiðlun. Sami aðili má ekki eiga í bæði dagblaði og ljósvakamiðli. En frv. bannar ekki að sami aðili eigi þrjú, fjögur, fimm, sex eða sjö dagblöð. Það bannar ekki að sami aðili eigi öll dagblöð á Íslandi og það bannar heldur ekki að sama fyrirtæki eigi marga ljósvakamiðla. Er það fjölbreytni? Frv. virðist hins vegar banna, eins og fram hefur komið, Hallbirni Hjartarsyni að reka bæði Kántrýbæ og senda út Útvarp Kántrýbæ, ef það væri sent til allra landsmanna. Ég spyr nú: Hvers konar grín er þetta, hæstv. forseti?

Hæstv. forsrh. gerði eðlilega --- af því að hann hefur hingað til litið á sjálfan sig sem boðbera frelsis í atvinnurekstri --- töluvert úr því ákvæði í frv. sem bannar markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga nokkuð í fjölmiðli. Frumvarpið segir að slík fyrirtæki megi ekki eiga nokkurn skapaðan hlut í fjölmiðlum. En er ekki hæstv. forsrh. sammála mér um að með þessum hætti er óhæfilega verið að rýra sjálfsagða möguleika ungra og nýrra miðla til að verða sér úti um fjármagn til að byggja sig upp? Ég rifja það upp að það eru örfáir dagar síðan hæstv. samgrh. lýsti því vel í ræðu á hinu háa Alþingi að fram undan væri mikil og kostnaðarsöm bylting í fjarskiptatækni sem yrði ljósvakamiðlunum svo erfið að hann taldi þurfa að grípa til sérstakra aðgerða af hálfu ríkisins, setja upp sérstakt samlag, til að auðvelda þeim það. Það sýnir auðvitað hversu vitlaust þetta ákvæði er að einn af höfundum skýrslunnar, sem hæstv. forsrh. hefur lofað svo mjög í dag, hann hefur opinberlega dregið réttmæti þess í efa.

Mig langar að deila með hæstv. forsrh. reynslu minni af því að horfa á sjónvarp. Ég horfi sjálfur mikið á Skjá 1. Ég er nátthrafn eins og kannski hæstv. forsrh. og tel að Skjár 1 sé frábær stöð. En það hefur komið fram í fréttum að fyrirtækið þarf fjármagn til að byggja sig upp til að standast samkeppni og veita mér og öðrum þegnum landsins betri þjónustu. Þá spyr ég: Hvers vegna má ekki gott og öflugt markaðsráðandi fyrirtæki, t.d. Flugleiðir sem hefur lýst því yfir að það sér að leita að heppilegum fjárfestingartækifærum innan lands sem skili góðum hagnaði, fjárfesta í Skjá 1 og hjálpa honum til að veita mér, hæstv. forsrh. og öllum þingheimi betri þjónustu og efla þannig fjölbreytni á markaðnum?

[16:45]

Herra forseti. Eins og ég rakti fyrr í ræðu minni hefur ríkisstjórnin ekki skilgreint þær ógnir sem gætu falist í því að eitt og sama fyrirtæki eigi bæði í dagblaði og ljósvakamiðli og enn síður hvers vegna markaðsráðandi fyrirtæki má ekki með þessum hætti byggja upp fjölmiðil. Ég tel að önnur lögmál gildi um fjölmiðla en atvinnulífið almennt. Ég tel að samþjöppun í eignarhaldi gæti til langs tíma falið í sér ákveðna hættu.

Það er ekki hægt að útiloka að eigandi margra miðla freistaði þess að samræma ritstjórnarstefnu þeirra allra í krafti eignarhalds og misnota hana síðan gegn einstökum stjórnmálamönnum, einstökum flokkum eða fyrirtækjum sem hann á í samkeppni við eða til að setja sitt eigið fyrirtæki í hagstætt ljós. Þetta eru hætturnar. En þær eru hvorki tíundaðar í máli né frumvarpi hæstv. forsrh.

Samfylkingin gerir sér ljósa grein fyrir þessum möguleikum og það er þess vegna sem Samfylkingin hefur lagt fram sérstakar hugmyndir sem við teljum að bægi þessum hættum frá en með miklu mildari aðgerðum en þær leiðir sem hæstv. ríkisstjórn vill fara. Þessum hugmyndum okkar er beinlínis stefnt gegn afleiðingum samþjöppunar á markaðnum til lengri tíma.

Í þingmáli sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir var 1. flutningsmaður að hér fyrr í vetur var lagt til tvennt. Í fyrsta lagi að í lög verði leitt að eignarhald á fjölmiðlum verði gagnsætt þannig að almenningur eigi alltaf greiðan aðgang að upplýsingum um hver eigi þá. Við teljum að það skipti miklu máli til að menn geti metið innihald þeirra í því ljósi og þar með trúverðugleika.

Fyrir skömmu var sú staða uppi að enginn vissi um tíma hver átti Fréttablaðið. Ég taldi það forkastanlegt. Það gerði hæstv. forsrh. líka og það kom síðar í ljós að það voru Baugsmenn. En þrátt fyrir réttmæta hneykslan hæstv. forsrh. á þessu, þrátt fyrir að höfundar fjölmiðlaskýrslunnar leggi áherslu á að gagnsæi um eignarhald sé sett í lög og þrátt fyrir eindregin tilmæli Evrópuráðsins og þrátt fyrir tillögu Samfylkingarinnar frá því fyrr í vetur þá er ekkert um þetta í frv. hæstv. ráðherra. Ríkisstjórnin blessar þetta í reynd með þögninni og aðgerðaleysi. Ég gef ekkert fyrir það þó að hæstv. forsrh. segi að það eigi að huga að málinu í nefnd. Við þekkjum það að þegar þessi ágæti maður ætlar að huga að málum þá svæfir hann þau.

Í öðru lagi lagði Samfylkingin til að fjölmiðlar hefðu lagaskyldu til að setja sér innri reglur sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum. Þannig er tryggt að eigandinn geti ekki misnotað ritstjórnir. Það þarf engar opinberar eftirlitsstofnanir með þessu eins og hæstv. menntmrh. hélt fram á þingi í síðustu viku vegna þess að hið sívirka aðhald kemur að innan frá starfsmönnum ritstjórnanna af því að það er í þeirra þágu að slíkar reglur séu haldnar. Við höfum nýlegt dæmi sem varðar einmitt ráðherra hæstv. ríkisstjórnar sem sýnir þetta svart á hvítu.

Við í Samfylkingunni teljum því að lög af þessu tagi, lög sem tryggja gagnsæi varðandi eignarhald auk þeirra víðtæku möguleika sem samkeppnislög veita til íhlutunar vegna misnotkunar á stöðu á markaði, dugi til að bægja frá þeirri hættu að samræmd ritstjórnarstefna yrði misnotuð af eiganda. Leið Samfylkingarinnar er mildari leið sem skilar meiri og markvissari árangri, sem er líka í samræmi við viðurkenndar aðferðir, t.d. fyrirmæli Evrópuráðsins. Ég tel því að ef lögum væri breytt samkvæmt þessum hugmyndum Samfylkingarinnar yrði frumvarp hæstv. forsrh. óþarft.

Ég vek eftirtekt á því að í þessari umræðu af hálfu hæstv. forsrh. hér í dag fann ég ekkert, fremur en ég fann það í fjölmiðlaskýrslunni, sem kallar á tafarlausar aðgerðir. Ég tel þess vegna að í ljósi þessa væri langskynsamlegast að láta þetta mál fá yfirvegaða umræðu.

Ríkisstjórnin og hæstv. forsrh. hafa lagt mikla áherslu á Evrópuráðið. Ég vek eftirtekt á því að núna nýlega lagði ríkisstjórn Lúxemborgar fram frumvarp um breytta skipan fjölmiðla. Það var yfirlýst markmið þeirrar ríkisstjórnar að umræða og umfjöllun um það frumvarp yrði vönduð og fagleg. Þess vegna sendi ríkisstjórn Lúxemborgara frumvarpið til umfjöllunar og umsagnar Evrópuráðsins áður en ætlunin var að afgreiða það endanlega. Þessu var lýst sérstaklega af talsmanni Evrópuráðsins í fjölmiðlamálum sem mjög eftirsóknarverðum og faglegum vinnubrögðum.

Ríkisstjórn Íslands hefur í þessu máli lagt mikla áherslu á að fara eftir því sem Evrópuráðið mælist til. Ég vil því taka hæstv. forsrh. á orðinu og leggja til fyrir hönd Samfylkingarinnar að ríkisstjórn Íslands fari að fordæmi Lúxemborgara og sendi sitt frumvarp um breytingar á starfsemi fjölmiðla til umsagnar Evrópuráðsins. Það mundi fela í sér vönduð og fagleg vinnubrögð.